fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanBættar samgöngur – meiri lífsgæði

Bættar samgöngur – meiri lífsgæði

Linda Hrönn Þórisdóttir skrifar:

Eins og fjölmargir aðrir hafnfirskir foreldrar bregð ég mér í hlutverk leigu­bílsstjóra seinni partinn flest alla daga og skutlast með börnin mín til og frá frí­stundum víða um Fjörðinn. Mér finnst ég þó oft frekar vera í hlutverki formúlu­kappakst­urs­hetju þar sem tíminn er stund­um naumur og allra bragða beitt til að komast á sem skemmstum tíma á milli staða. Á vegi mínum verða aðr­ir hafnfirskir foreldrar í sömu erindagjörðum og um­ferðin er þung og hæg.

Oft hugsa ég til þess tíma þegar Frístundabíllinn keyrði um götur bæjarins, sótti börnin í næsta nágrenni við heimili þeirra og keyrði upp að dyrum hjá íþrótta- og tómstunda­mann­virkjum. Í stað þess að skutlast út um allan bæ gat ég verið heima að undirbúa matinn, taka á því í ræktinni eða bara slappa af í sófanum. Það voru góðir tímar. Ávinningurinn var ekki eingöngu aukin þægindi fyrir mig heldur var hann líka mikill fyrir umhverfið og skapaði meira öryggi í umferðinni. Frístundabíllinn fékk ekki langan tíma til að sanna sig og meirihluti Vinstri grænna og Samfylkingar sem sátu í bæjarstjórn lögðu niður þennan valkost foreldra.

Þó Frístundabíllinn sem slíkur hafi heyrt undir málaflokk sveitastjórnar er ástæða til að minnast á hann í að­drag­anda alþingiskosninga. Samgöngur eru nefnilega málefni sem varðar alla þjóð­ina. Við Hafnfirðingar höfum manna mest orðið vör við aukin um­­ferðarþunga í gegnum fallega bæinn okk­ar og ofanbyggðarvegur virðist fjarlægur draumur. Mér finnst ég taka áhættu með eigið líf þegar ég keyri inn á hring­torgið við Setbergið og N1 eða þá hjá Kapla­krika. Óra­tíma tekur á morgnanna að komast út úr Hafnarfirði til Reykja­víkur og búast má við svipaðri tíma­lengd þegar hald­ið er heim á leið seinni part­inn. Ekki er á það treyst­andi að neyðarakstur gangi hratt og greitt fyrir sig þar sem núverandi staðsetning Land­spítalans er við eina mestu umferðaræð landsins. Framsóknar­flokk­urinn leggur áherslu á að ein mikil­vægasta fjárfesting landsmanna sé fólgin í áframhaldandi uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Stórauka þarf framlög til viðhalds og nýbyggingu vega, auka þarf umferðar­öryggi og vinna kerfisbundið eftir sér­stakri umferðaröryggisáætlun. Bætt vegakerfi sem stuðlar að auknu öryggi í um­­ferðinni eykur svo sannarlega lífs­gæði okkar en efla þarf einnig al­­mennings­sam­göngur sem raunverulegt val og móta þær með þeim hætti að ungir sem aldnir geti notið þeirra með öruggum og ánægjulegum hætti.

Linda Hrönn Þórisdóttir leikskólastjóri
skip­ar 5. sæti á lista Framsóknar­flokksins í suðvesturkjördæmi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2