Hafnarfjarðarbær endurnýjaði nýverið samning við Bergið headspace, ráðgjafa- og stuðningssetur fyrir ungt fólk að 25 ára aldri. Bergið er með útibú í Hamrinum, ungmennahúsi Hafnarfjarðar og hefur verið ungu fólki aðgengilegt frá því árið 2021 eða þegar Hafnarfjörður fyrst undirritaði samning við Bergið að tillögu Ungmennaráðs Hafnarfjarðar.
Markmið Bergsins er að bjóða upp á þjónustu sem stendur öllum opin, áhersla er á stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Í Berginu er lagt upp með að skapa notalegt og öruggt umhverfi fyrir ungt fólk sem þarf aðstoð fagfólks með fjölbreytta reynslu í heimabyggð alla mánudaga.
Unga fólkið okkar sem sækir ungmennahúsið Hamarinn hefur verið duglegt að sækja þjónustu Bergsins en á síðasta ári leituðu tugir einstaklinga eftir þjónustunni og um 150 viðtöl voru veitt. Starfsfólk Bergsins metur hvort einstaklingurinn þurfi dýpra inngrip eða þjónustu sem þá er veitt af sálfræðingum.
Stöndum með unga fólkinu okkar
Þjónustan er hafnfirskum ungmennum að kostnaðarlausu og öllum opin. Vonast er til að þau ungmenni sem telja sig þurfa ráðgjöf leiti til starfsfólks Hamarsins sem aðstoðar þau við að tengjast starfsfólki Bergsins. Unglingsárin eru umrótartími í lífinu og það er gott og hollt að leita sér ráðgjafar, spegla reynslu og tilfinningar og ræða málin við utanaðkomandi í trúnaði og trausti sem er eitt af lykil gildum Bergsins.
Að vera ungur einstaklingur í dag að fóta sig í flóknum heimi getur verið erfitt en oft þarf ekki annað en að tala við einhvern og ræða málin. Stundum er það þó ekki nóg og þá er gott að hafa aðgengi sem þetta og ekki síður mikilvægt fyrir foreldra og forráðamenn að vera meðvituð um þessa þjónustu. Bergið og Hamarinn eru öllum ungmennum opið, þar er einnig hægt að hitta starfsfólk Hamarsins og annað ungt fólk og taka þátt í fjölbreyttu félagslífi sem þar er í boði. Með þessu erum við að tryggja jafnt aðgengi fyrir alla og standa með unga fólkinu okkar sem er okkur svo mikilvægt.
Kristín Thoroddsen,
formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar (S)