fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkBetur má ef duga skal!

Betur má ef duga skal!

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar 2018

Þrátt fyrir að í fjárhagsáætlun Hafnar­fjarðar 2018 og næstu þriggja ára þar á eftir séu mörg góð verkefni sem fá brautar­gengi og tryggt fjár­magn svo hægt sé að ráðast í þau eru líka veigamikil mál­efni og verk­efni sem hljóta ekki þann sess í áætluninni sem þeim ber. Þar er m.a. um að ræða þá lágu fjárhæð sem ætluð er til að undirbúa uppbyggingu leik­skóla í Suðurbæ. Það er ljóst að við í minnihlutanum hefð­um viljað sjá markvissari skref stigin strax á næsta ári til uppbyggingar á þeirri mikilvægu þjón­ustu í Suðurbæ. Að ætla 2,5 milljónir til þessa undirbúnings á næsta ári er langt frá því að vera ásættanlegt.

Eins er ekki hægt að líta fram hjá því að við í minnihlutanum í umhverfis- og framkvæmdaráði hefðum kosið að markvissari skref hefðu verið stígin í að íbúar hefðu raunveruleg áhrif á framkvæmdir í sínu nærum­hverfi með samræðu og tillögum á grundvelli aukins íbúalýðræðis líkt og gerist í nágrannasveitar­félög­um okk­ar og hefur gefið góða raun. Að áætla 10 milljónir í þetta verkefni á næsta ári og svo 15 milljónir á ári næstu þrjú árin er langt frá því að vera ásættanlegt.

Svo ekki sé minnst á þann sess sem aðgerðir í umhverfis­málum í sveitar­félaginu hljóta í þessari fjárhagsáætlun. Það er ljóst að þar hefði þurft að bæta í umtalsverðu fjármagni svo m.a. hefði mátt koma þeirri metnaðarfullu umhverfis- og auðlindastefnu Hafnar­fjarðar sem verið hefur í undirbúningi undanfarin misseri í markvissa fram­kvæmd strax á næsta ári. Með samþykkt þessarar fjárhags­áætl­unar í bæjarstjórn þann 6. desember síðastliðinn er hætta á að sú stefna sem nú liggur fyrir og bíður afgreiðslu í bæjarstjórn verði ekkert annað en fallegt plagg og lítið annað. Við það er ekki hægt að una.

Að þessu leyti veldur nýsamþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2018 og til næstu þriggja ára þar á eftir talsverðum vonbrigðum. Við í minnihlutanum munum halda áfram baráttu okkar fyrir því að mikilvæg verkefni líkt og þau sem nefnd eru hér að ofan fái betra brautargengi á næstu árum, íbúum Hafnarfjarðar til heilla.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og á sæti í umhverfis- og framkvæmdaráði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2