fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkBrúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla

Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla

Una Hildardóttir og Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir skrifa:

Í dag virðist hálfgert fæðingardagslottó ráða því hvort foreldrum takist að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla eða ekki. Sé afmælisdagurinn á fyrri hluta árs er raunhæft að komast að á leikskóla eða hjá dagforeldri þegar barnið er 12-18 mánaða. Á kjörtímabilinu lengdi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fæðingarorlof úr 9 mánuðum í 12, sem stytt hefur óvissutíma foreldra og gefið börnum lengri tíma með foreldrum sínum. Einhver hafa fjárhagslega burði til þess að dreifa orlofi sínu til þess að brúa bilið, en alltaf eru einhverjir foreldrar sem þurfa að sætta sig við tekjumissi og óvissu.

Barneignir eru ekki forréttindi

Það er nauðsynlegt að hlúa betur að börnum og barnafjölskyldum. Endurskoða þarf fæðingarorlofskerfið, sérstaklega fæðingarstyrki foreldra í námi og tekjulágra. Í dag fá foreldrar greitt 80% af meðaltekjum á orlofstímabilinu, mikilvægt er því að tekjutengja skerðinguna svo að tekjulægri foreldrar lifi ekki undir fátæktarmörkum.

Byggjum á góðum grunni

Í Hafnarfirði komast börn almennt inn á leikskóla það ár sem þau verða tveggja ára nema um forgang sé að ræða og ekki er boðið upp á ungbarnaleikskóla, svo að eina leiðin til þess að brúa bilið er með dagforeldrum. Það er ekki úrræði sem allir foreldrar hafa tök á að greiða fyrir né hafa yfir höfuð aðgang að vegna framboðs.  Við höfum byggt undirstöður brúarinnar á  milli fæðingarorlofs og leikskóla og þurfum að halda uppbyggingunni áfram.

Auðvelda þarf ófaglærðum starfsmönnum leikskóla að sækja sér háskólamenntun og  halda áfram að stytta vinnuvikuna meðfram auknum fjárframlögum til leikskóla. Stytting vinnuvikunnar og fjölgun leikskólastarfsmanna getur dregið úr álagi og fjölgað leikskólaplássum. Koma þarf betur til móts við ungar barnafjölskyldur, hækka viðbót barnabóta fyrir börn yngri en 7 ára og skerðingarhlutfall hennar, tryggja börnum yngri en 6 ára frístundastyrki og styrkja enn frekar og lengja meðgöngu- og ungbarnavernd. Öllu þessu viljum við í VG halda áfram að vinna að af miklum krafti, því við það er algjört grundvallaratriði að öll börn fái tækifæri til þess að alast upp við fjárhagslegt og félagslegt öryggi.

Una Hildardóttir 2. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.
Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir 4. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2