fbpx
Miðvikudagur, desember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirPólitíkByggjum fleiri íbúðir

Byggjum fleiri íbúðir

Ein af grunnhugsjónum sjálfstæðis­stefnunnar er að sem flestir geti eignast sitt eigið húsnæði.

Sem oddviti Sjálf­stæðisflokksins í Hafnarfirði í meirihluta í bæjarstjórn frá árinu 2014 hef ég lagt á það mikla áherslu að nægt framboð lóða fyrir íbúðahúsnæði sé fyrir hendi og dylst engum þegar farið er um nýjustu hverfi bæjarins að gríðarleg uppbygging hefur og á sér enn stað. Enda hefur íbúum bæjarins fjölgað hratt á síðast­liðnum árum og eru nú um 32.600. Gert er ráð fyrir að íbúarnir verði orðnir um 40.000 eftir fimm ár. Þær staðreyndir tala sínu máli. Hafnarfjarðarbær hefur sinnt skyldu sinni í þessum efnum og sala nýrra íbúða gengið mjög vel.

Þurfum fjölbreyttar íbúðir og nýtt land undir lóðir

Auk uppbyggingar á nýjum svæðum hefur verið byggt á þéttingarreitum og á undanförnum vikum hafa samningar verið undirritaðir við lóðarhafa á hafnar­svæðinu og má því vænta að fram­kvæmdir fari að hefjast þar. Það er mikilvægt að íbúðaframboð sé fjölbreytt bæði hvað staðsetningu og stærð varðar, til að koma til móts við mismunandi óskir og þarfir.
Lítið lóðaframboð er eitt af því sem hefur þrengt að húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri.

Víðari vaxtarmörk

Í Hafnarfirði hefur þó verið skilningur fyrir hendi eins og tölurnar sýna. Það þarf að halda áfram að brjóta nýtt land og höfum við bent á það innan svæðis­skipulags höfuðborgarsvæðisns að víkka þurfi vaxtarmörk svæðisins. Ekki síst í ljósi þess að spá um íbúafjölgun á svæðinu hefur farið langt fram úr því sem spáð var þegar vaxtarmörkin voru samþykkt fyrir um tíu árum.

Ef ekki næst samkomulag um það innan svæðisskipulagsnefndarinnar verð­ur að breyta lögum þarna um svo einstök sveitarfélög hafi ekki neitunar­vald en eins og kunnugt er hefur vinstri meirihlutinn í Reykjavík lýst yfir and­stöðu við frekari útþenslu íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu.

Lægri verðbólga og vextir

Auk lóða- og íbúðaframboðs hefur vaxtastigið mest áhrif á stöðuna á íbúðamarkaðnum og sjáum við fram á bjartari tíma nú þegar vaxtalækk­unarferlið er hafið. Við finnum það ekki síst hjá Hafnarfjarðarbæ í því hve mikil eftirspurn er eftir lóðum um þessar mundir. Jafnvægi á húsnæðismarkaðn­um stuðlar að minni verðbólgu og lægri vöxtum. Það er stærsta hagsmunamál okkar allra.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri
og skipar 4. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðileg jól

Jólahugvekja

Vísindi notuð í varnarskyni

H2