Góð og málefnaleg umfjöllun hjá Heimildinni 10. janúar 2025 um meint Carbfixverkefnið við bæjardyr Hafnfirðinga. Að venju mótmælti forsvarsfólk verkefnisins upplýsingunum, sjá hér en viðbrögð þess dæma sig sjálf. Forsvarsfólk Carbfix hefur, í stað þess að aðlaga sig að aðstæðum, reynt að gera alla þá er vilja verkefninu vel með vinsamlegum ábendingum um galla þess og kosti, að andstæðingum sínum.
Hef áður bent á rangfærslur í málflutningi hlutaðeigandi og afsannað ómálefnaleg rök þeirra þegar til nýtingar þéttbýlissvæðis við framkvæmdina með allri þeirri áhættu og mögulegum óþægindum fyrir íbúana, auk þess sem bent hefur verið á óeðlileg tengsl og umfjöllun einstakra fræðimanna í fjölmiðlum hvað varðar tengsl þeirra við Háskólasamfélagið þaðan sem verkefnið er upprunnið. Í nýlegri skýrslu Skipulagsstofunar kemur ljóslega fram að framkvæmd Carbfix, eins og hún er áætluð, muni valda „tilfallandi jarðskjálftatíðni“ á meðan á niðurdælingu stendur.
Þegar rökræðunum um málefni þrýtur er, því miður, líkt og nú, ráðist á andmælandann. Í þessu tilviki hefur hann engra annarra hagsmuna að gæta en öryggi og velferð samfélagsins til framtíðar litið.
Þegar meintum rökum fjármálamálsmetandi áhrifaafla sem og Carbfix er andmælt má ávallt vænta slíkra viðbragða. Í flestum tilvikum eru viðbrögðin, sem betur fer, bæði réttmæt og sanngjörn, en í tilfelli Carbfix hafa viðbrögðin nánast eingöngu falist í ótrúverðuleika. Að vísu hafa honum fylgt ýmsar játningar um ýmislegt sem betur hefði mátt fara af þeirra hálfu, sem verður jú að þykja verulega jákvætt.
Meginviðfangsefni Carbfix er ekki að nýta sér nýfengna þekkingu, sem gæti nýst staðbundin um nánast heim allan, heldur er ætlun fyrirtækisins nú að nýta sér nágrenni íbúðarbyggðar Hafnarfjarðar í neikvæðum tilgangi fyrir íbúa svæðisins.
Óskin er þessi; ef til kosningar kemur um Carbfix-verkefnið bið ég bæjarbúa um að hafna því, þótt ekki væri fyrir annað en óvissuna sem því fylgir.
Skoðaði í dag Skipulagsgáttina. Þar segir m.a. um „Breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 vegna borteiga“.
„Upplýsingar um málið:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 17. janúar 2024 að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 vegna borteiga samhliða gerð nýrra deiliskipulagsáætlana og breytingum áætlana sem þurfa að koma til vegna þessa verkefnis.
Skipulags- og matslýsing var auglýst með athugasemdafresti til 29. febrúar sl.
Á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 12. september sl var samþykkt að athugarsemdarfrestur verði til og með 10. október 2024.“
Fólki var boðið að senda inn athugasemdir, en ég get ekki séð að t.d. mínar athugasemdir séu þar að finna. Svo virðist sem stjórnvöld ákveði að hunsa tilteknar athugasemdir, en taka aðrar, þeim þóknanlegar, góðar og gildar. Má þar t.d. nefna umsögn Byggðasafns Hafnarfjarðar, sem fann ekkert athugarvert við staðsetninguna, „því þar væru engar fornleifar að finna“. Ef hins vegar opinber minjaskrá Hafnarfjarðar er skoðuð eru á svæðinu fjöldi fornleifa!?
Hún er nú á stundum skondin kýrin sú, sem á að fóstra okkur bæjarbúa.
Ómar Smári Ármannsson