Álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati fyrir Coda Terminal, móttöku- og geymslustöðvar fyrir koltvísýring sem Carbfix vill reisa í landi Hafnarfjarðar, var birt í dag.
Ætlun Carbfix er að taka á móti flutningaskipum sem flytja spillingarefni til landsins og dæla þeim ofan í jörðu þar sem þau bindast við berglög með aðferð sem fyrirtækið þróaði til þess að farga kolefni og brennisteinsvetni við Hellisheiðarvirkjun.
Verkefnið hefur mætt háværri mótspyrnu hjá sumum íbúum Hafnarfjarðar sem hafa varað við mögulega skaðlegum áhrifum á vatnsból og umhverfi auk þess sem þeir telja að niðurdæling uppleysts koltvísýrings gæti valdið jarðskjálftavirkni í nágrenni íbúabyggðar á Völlunum.
„Skipulagsstofnun telur ekki að framkvæmdin sé líkleg til að hafa áhrif á vatnsból við Kaldárbotna og í Vatnsendakrikum enda séu þau utan áhrifasvæðis niðurdælingar og vatnstöku. Byggir stofnunin það á gögnum Carbfix og sérfræðiáliti Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðfræðings.“
Skipulagsstofnun segir hins vegar að í ljósi nálægðar við íbúabyggð og umfangs framkvæmdanna, sem ÍSOR segir að sé af allt annarri stærðargráðu en önnur niðurdæling sem hefur átt sér stað hér á landi, sé þörf á að gæta fyllstu varúðar enda sé ekki hægt að útiloka að fólk greini skjálftavirkni.
Þá er varað við mögulegri mengun í grunntjörnum við Straumsvík sem og jafnvel í Ástjörn, Hvaleyrarvatni og Urriðavatni. Satt best að segja; ef varað er við mögulegri mengun í Hvaleyrarvatni og Urriðakotsvatni, hvað þá um aðra mögulega mengun annars staðar á bæjarstæði Hafnarfjarðar?
Ljóst er að nefndur Magnús Tumi, prófessor við Háskóla Íslands, er vanhæfur til að gefa álit á starfsemi Carbfix. Hann er og var starfsmaður stofnunar þeirrar er verkefnið var upprunnið frá og á því hagsmuna að gæta. Auk þess hefur verið fátt merkilegt, sem Magnús Tumi hefur látið hafa eftir sér um jarðfræði eða jarðhræringar á Reykjanesskaga, verið á byggjandi.
„Forsendur leyfisveitinga til Coda Terminal ættu að byggja á því að íbúar í nágrenni framkvæmdasvæðis verði ekki varir við jarðskjálfta sem rekja megi til starfseminnar, að mati Skipulagsstofnunar.“ Hvernig er hægt að veita leyfi með því skilyrði að „íbúar í nágrenni framkvæmdasvæðis verði ekki varir við jarðskjálfta sem rekja megi til starfseminnar?“ Þvílík vitleysa!
Í stuttu máli má segja að álit Skipulagsstofnunar sé meira og minna svo lítt ígrundað að jaðra megi við handvömm.
Ómar Smári Ármannsson,
fornleifafræðingur og fv. aðst.yfirlögregluþjónn
og íbúi á Völlum