Hef að undanförnu skrifað svolítið um Carbfix-vitleysuna, sem bæjarbúum er boðið upp á með það að markmiði að upplýsa bæjarbúa um stöðu mála þar sem fulltrúar bæjarins virðast hafa flotið sofandi að feigðarósi. Hér er gerð enn ein tilraunin til slíkrar upplýsingamiðlunar, þ.e. eftir bestu vitund.
Viðskiptaáætlun Carbfix miðast ekki að því að stemma stigu við loftlagsvánni. Hún snýst fyrst og fremst um gróðahyggju. Meintar kynntar tilraunirnar að baki áætluninni er bæði brotakennd og stenst enga skoðun – ef betur er að gáð.
Orkuveita Reykjavíkur reyndi að selja hlut í tveimur dótturfélögum sínum 2023; Ljósleiðaranum og Carbfix. Hún áætlaði að það myndi skila um 61 milljarði króna í innborgað hlutafé á næstu fjórum árum. Spáin gerði ráð fyrir því að tekjur í starfsemi síðarnefnda félagsins muni vaxa mikið. Hefðu þær spár gengið eftir ætlaði Orkuveitan að borga eigendum sínum: Reykjavík, Akranesi og Borgarbyggð, út samtals 35 milljarða króna í arð á tímabilinu.
Ef Orkuveitunni hefði tekist að finna kaupendur að nýju hlutafé í Ljósleiðaranum og Carbfix þá ætlaði hún að greiða eigendum sínum sex milljarða króna í arð. Stærstur hluti færi til stærsta eigandans, Reykjavíkurborgar.
Hvers vegna ættu íbúar Hafnarfjarðar að bjóða Reykvíkingum að sóða út í annars fagurt bæjarstæðið sitt til þess eins að þeir gætu grætt sem mest á óþrifnaðinum, nágrönnum sínum til handa? Reyndar endurspeglar nefnd gróðrarhyggja heiminn í dag. Bieden, Bandaríkjaforseti, sagði m.a. í lokaræðu forsetusíðar sinnar þann 15. jan. sl.; „Sannleikurinn er í dag, því miður, grafinn undir lygum um aukinn gróða og völd“.
Samstæða Orkuveitu Reykjavíkur skilaði hagnaði upp á 29,2 milljarða króna á árinu 2023. Innan hennar voru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka Náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. Rekstrartekjur jukust milli ára en rekstrarhagnaður stóð nánast í stað.
Í ársreikningi Orkuveitunnar, sem birtur var 2024, kom fram að stjórn hennar leggi til að sex milljarðar króna verði greiddir út í arð til eigenda hennar vegna frammistöðu síðasta árs, en þó þannig að tveir milljarðar króna verði skilyrtir því að áform um sölu á hlutafé í dótturfélögunum Ljósleiðaranum og Carbfix gangi eftir. Þar segir enn fremur að „sjóðstaða Orkuveitunnar sé sterk, og hafi í árslok verið 19 milljarðar króna. Auk þess hafi samstæðan aðgang að lánalínum upp á 14,7 milljarða króna. Því var lausafé Orkuveitunnar 33,7 milljarðar króna um síðastliðinn áramót og jókst um 6,9 milljarða króna milli ára.
Hinn dæmigerði viðskiptavinur Orkuveitunnar, íbúar Reykjavíkur og nágrennis, hefur ekki hingað til fengið að njóta „hagsældar“ fyrirtækisins í lækkuðum gjöldum, nema síður sé.
Kaldavatnsnotkun í Reykjavík nemur um 700 lítrum á sekúndu, en fyrirhugað verkefni Carbfix í Straumsvík, þar sem dæla á milljónum tonna af koltvísýring og öðrum óþverra, s.s. blýi, blásýru og zinki, ofan í berglögin, þarf að sækja um 2.500 lítra á hverri sekúndu í grunnvatnsstraum svæðisins. Straumsvíkurstraumurinn er öflugur, en opinberar stofnanir segja vatnstökuna vandasama. Hafa ber í huga að hraunin ofan Straumsvíkur lúta lögmálum flóðs og fjöru. Þegar flæðir að fyllast þau af sjó og þegar fjarar streymir jarðsjórinn út á fjörusvæðin. Með tilkomu utanaðkomandi spillingarefna eykst hætta á verulegri ófyrirséðri mengun með stRandlengjunni.
Veðurstofa Íslands segir það svæði sem Coda Terminal, niðurdælingarverkefni Carbfix við Straumsvík, er áformað á standa á sögulegu hrauni frá eldstöðvakerfi Krýsuvíkur og minnir á að gosskeið sé hafið á Reykjanesskaga.
Það er mat Veðurstofu Íslands að kafla um náttúruvá vanti í tillögu að deiliskipulagi lóða sem niðurdælingarverkefni Carbfix, Coda Terminal, yrði á í Hafnarfirði. Svæðið sem er til umræðu er á Kapelluhrauni, sögulegu hrauni frá eldstöðvakerfi Krýsuvíkur, rifjar Veðurstofan upp í umsögn sinni um deiliskipulagstillöguna. „Þar sem gosskeið er hafið á Reykjanesskaganum er enn mikilvægara að hafa hrauna- og eldgosavá í huga þegar kemur að skipulagsmálum, þrátt fyrir að Krýsuvík sýni ekki merki um kvikusöfnun akkúrat núna.“
Veðurstofan leiðir nú verkefni um áhættumat fyrir Reykjanesskagann í heild sem á að klárast á fyrri hluta árs 2026, en innan þess verkefnis er höfuðborgarsvæðið í forgangi. Gert er ráð fyrir að mat á hraunavá verði tilbúið fyrir höfuðborgarsvæðið á næstu 12 mánuðum.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í júní að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns 3 sem og nýtt deiliskipulag í sunnanverðu Kapelluhrauni fyrir borteiga vegna Coda Terminal. Samkvæmt breytingunni stækkar skipulagssvæðið, lóðir eru sameinaðar og fleirum bætt við. Samkvæmt tillögunum yrði heimilt að hafa borteiga með öllu því sem til þarf til niðurdælingar CO2 í jarðlög á svæðinu. Á borteigum yrði CO2 leyst í vatni og dælt niður í berglögin þar sem það steingerist.
Í framangreindum áætlunum liggja engar sannanir fyrir að sorpið „steingerist“ við þargreindar aðstæður!
Á hverjum teig yrðu allt að átta niðurdælingarholur ásamt 2–4 vatnstökuholum. Heimilt er að byggja eina þjónustubyggingu á hverri lóð, áætluð stærð er um 150 fermetrar og veðurskýli yfir hverja borholu og er áætluð stærð hvers skýlis um 40 fermetrar. Samhliða deiliskipulagstillögum er gerð tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar (sem nú er í gangi).
Fyrirætlanir Carbfix eru mun umfangsmeiri en fram hefur komið. Stefnt er að því að dæla niður allt að 4,8 milljónum tonna af koldíoxíði (CO2) og fyrirtækið vonast til þess að velta hátt í þrjú hundruð milljörðum á fullum afköstum. Það er hærri upphæð en stærsta fyrirtæki landsins veltir í dag. Á meðal viðskiptavina er fyrirtæki sem framdi glæp gegn mannkyni og vill dæla niður CO2 á Íslandi.
Carbfix, fyrirtæki Orkuveitunnar sem fargar kolefnum með því að dæla þeim ofan í jörðina, stefnir að mun meiri niðurdælingu á koldíoxíði í Hafnarfirði en íbúum hefur verið sagt frá. Fyrirtækið stefnir að niðurdælingu í gegnum verkefni sem hefur fengið nafnið Coda Terminal í útjaðri bæjarins. Carbfix hefur gert viljayfirlýsingu við fyrirtæki sem hefur hlotið dóm fyrir glæpi gegn mannkyni um að taka við og dæla niður í íslenska jörð meira en tveimur milljónum tonna af CO2. Fyrirtækið neitar því að það ætli að dæla meira niður, en áréttar að ef áhugi væri á slíku í framtíðinni, fæli það í sér nýtt verkefni sem yrði lagt fyrir í nýju umhverfismati. Í viðskiptaáætlun fyrirtækisins segir að sótt verði um auknar heimildir til niðurdælingar, í fyrsta ársfjórðungi árið 2026.
Þær áætlanir Coda Terminal sem hafa verið kynntar fyrir íbúum ganga út á að flytja inn og dæla niður þremur milljónum tonna af koldíoxíði.
Carbfix hefur ekki viljað upplýsa hvaða fyrirtæki munu flytja CO2 til Hafnarfjarðar með það að markmiði að dæla því niður í jörðu. Fjölmörg nöfn má þó finna í fjárfestingakynningu Carbfix til EIG fjárfestingasjóðsins, og Morgan Stanley vann fyrir fyrirtækið sumarið 2023.
Til er listi yfir fyrirtæki sem Carbfix á í viðræðum við um niðurdælingu á koldíoxíði. Fyrirtækin eru í sex flokkum: Álver, sementsfyrirtæki, stáliðnaður, efnaverksmiðjur, orkufyrirtæki og svo önnur fyrirtæki. Sum þessara fyrirtækja hafa verið gagnrýnd harðlega vegna mengunar. Eitt þeirra var ábyrgt fyrir svartri snjókomu nærri verksmiðjum sínum. Nöfnin eru að finna í 120 blaðsíðna fjárfestingakynningu Morgan Stanley fyrir Carbfix og var unnin í júlí árið 2023.
Fá fyrirtæki eru hins vegar með jafn sláandi sögu og fransk-svissneska sementsfyrirtækið Lafarge/Holcim. Svissneska fyrirtækið Holcim – sem gefur sig út fyrir að vera „leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri uppbyggingu“ – sameinaðist franska fyrirtækinu Lafarge árið 2015 undir heitinu Lafarge/Holcim. Franska blaðið Le Monde ljóstraði upp árið 2016 að Lafarge greiddi ISIS-liðum nokkurs konar verndarskatt í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og fjármagnaði þannig hryllilegan hernað öfgasamtakanna. Alls greiddi fyrirtækið ISIS-liðum 13 milljónir evra.
Viðskiptaáætlun Carbfix fólst m.a. í að fela áform sín fyrir íbúum Hafnarfjarðar, en það fólk er til er veit betur. Al Core, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og mikill áhugamaður um raunverulega loftslagsvernd sagði m.a. eftir að hafa skoðað viðskiptaáætlun Carbfix: „Við sjáum hvað þið eruð að gera. Þessi meinta nýjasta tækni lítur frekar vel út, er það ekki?“ Al Gore spyr um fyrirtækin sem þrýsta á meiri áherslu á kolefnisföngun og aðra förgun. Vísinda- og fræðifólk í þremur heimsálfum er efins um að tæknin sem starfsemi Carbfix byggir á sé rétta leiðin til að berjast gegn loftlagsvánni.
Í fyrsta lagi er tæknin alls ekki svo nýtilkomin, eins og reynt er að láta út fyrir. Í öðru lagi væri í lófa lagið, ef kynning á henni gengi eftir, að nýta hana nánast alls staðar í heiminum, án þess að þurfa að sóða út umhverfið með því að flytja óþverrann heimshorna á milli með tankskipum.
Kolefnisföngun og -förgun er frumstæð og kostnaðarsöm tækni. Þetta eru niðurstöður vísindamanna við Oxford-háskóla. Tæknin er sögð hægvirk og áhrifalítil í loftslagsbaráttunni. Bandarískur fræðimaður varar við að kolefnisföngun geti skapað nýjan iðnað sem haldi losun gróðurhúsalofttegunda gangandi, en líftími slíkra fyrirtækja er bundinn líftíma losunaraðila. Rannsóknastjóri hjá ástralskri hugveitu kallar tæknina afvegaleiðingu olíu- og gasiðnaðarins, og Ástralar eru almennt neikvæðir eftir slæma reynslu af CCS-verkefnum.
Orkuveita Reykjavíkur, ásamt Carbfix, ætla að kosta töluverðu til þess að koma á laggirnar Coda Terminal-verkefninu í Hafnarfirði í von um milljarða króna hagnað. Til stendur að flytja koldíoxíð frá fjölmörgum alþjóðlegum fyrirtækjum til Íslands til förgunar. Sóðafyrirtæki heimsins hafa hingað til farið um landsvæði heimsálfanna á skítugum skónum. Hafnfirðingar láta ekki bjóða sér líkt.
Al Gore, skefur ekki utan af því þegar hann segir kolefnisföngun og förgun lítið annað en svikastarfsemi. Heldur hann því fram að þessi tækni sé í umræðunni til þess eins að afvegaleiða umræðuna um hina raunverulegu loftlagsvá þar gróðaöflin ráða ríkjum.
Ómar Smári Ármannsson