Útdráttur höfundar
Álit Skipulagsstofnunar um Coda Terminal /Carbfix sýnir að verulega skortir á að umhverfisáhrif niðurdælingar Carbfix séu þekkt. Álit Skipulagsstofnunar er ekki sama og leyfi fyrir því að halda megi áfram með framkvæmdina heldur aðeins krafa um að ef leyfisveitendur ætla að veita leyfi fyrir framkvæmdinni þá þurfi að upfylla ákveðin skilyrði sem þeir eru bundnir af.
Höfundur telur mjög vafasamt að Hafnarfjarðarbær hafi yfirleitt heimild skv. lögum til að leyfa að dæla efnum undir svæði sem eru skipulögð á Aðalskipulagi og í deiliskipulagi sem íbúðabyggð og/eða iðnaðarsvæði og eru þegar byggð. Vakin er sérstök athygli á því að stærsti hluti þess yfirborðs sem á að dæla undir er í langtíma „eign“ / leigu þeirra sem þar búa og að ekki er vitað til þess að lóðaleigusamningar vegna kaupa á lóðum hafi verið gerðir með fyrirvara um að íbúar gætu gert ráð fyrir niðurdælingu efna í undirstöður / berggrunn lóðanna. Og þannig geta gert ráð fyrir skerðingu á verðmæti eigna sinna ásamt öðrum óþægindum s.s. hugsanlegum jarðskjálftum, mengun og grunnvatnsbreytingum.
Höfundur bendir á að skoða þarf mjög alvarlega aðkomu Náttúruhamfaratryggingar Íslands að tryggingamálum t.d. í tengslum við jarðskjálfta.
Inngangur
Undirritaður ætlar ekki í þessum skrifum að nota mikinn tíma í að fara yfir fræðilegan og vísindalegan bakgrunn að fyrirætlunum Coda Terminal / Carbfix í Hafnarfirði. Það hefur verið gert í mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunar. Nú síðast hefur verið farið yfir skilyrði sem Carbfix þarf að uppfylla, ef leyfi á að fást fyrir framkvæmdunum, í ágætri grein í Heimildinni og einnig hefur verið bent á ýmsa annmarka á álitinu í Fjarðarfréttum í grein Ómars Smára Ármannssonar,
Í stuttu máli má segja að álit Skipulagsstofnunar sýni með afgerandi hætti að áhrif fyrirhugaðrar niðurdælingar eru verulega óljós s.s. á grunnvatnsborð, jarðskjálftavirkni, mengun, tjarnirnar í Straumsvík, vatnshlotið almennt og nærliggjandi vötn (sum friðlýst) o.s.frv. o.s.frv. Kjarninn í álitinu er að hvorki Carbfix eða aðrir hafa eiginlega ekki hugmynd um hver heildaráhrifin verða og iðulega vísað í álit en ekki staðreyndir. Staðreyndin er nefnilega sú að þó niðurdæling hafi átt sér stað við Hellisheiði þá hafa engar langtíma rannsóknir verið gerðar á áhrifum niðurdælingar á umræddu svæði í Hafnarfirði. Skipulagt og þegar byggt íbúða- og iðnaðarsvæði á ekki að gera að tilraunasvæði einhverra sem fá glýju í augun vegna hugsanlegra tekjumöguleika og pakka því síðan inn í að verið sé að leysa loftslagsvanda heimsins, eins nauðsynlegt og það samt er.
Til áréttingar þá leysir Carbfix aðferðin ekki loftslagsvandann. Síst af öllu með því að flytja mengunarefni/kolefni á milli landa. Markaðssetning kolefnisjöfnunaraðferða er oft mjög vafasöm því það hefur reynst erfitt að staðfesta vísindalega árangur hinna ýmsu aðferða (þ.m.t. til dæmis skógræktar með framandi ágengum tegundum) og þær draga úr hvata fyrirtækja til að minnka losun kolefnis. Ef nota á þessa aðferð við kolefnisbindingu á að gera það við uppsprettu losunarinnar. Allt sem þarf aukalega til að gera flutning á kolefni á milli landa mögulegan mun valda mikilli losun kolefnis auk þess að kosta gríðarlega mikið fjárhagslega og valda breytingum á náttúrunni hér. Þetta ætti að vera auðskilið. Gallinn við svona ævintýri er oft sá að sumir vilja ekki skilja hið margnotaða og marg misnotaða hugtak sjálfbær þróun / nýting nema út frá sínum eigin hagsmunum. Skoða ekki að fullu samverkan ólíkra þátta; félagslegra (t.d. líf íbúa á Völlunum, allt undir þar), efnahagslegra (hér t.d. atvinna vegna mengunar flutt inn í landið en einnig sem fjárhagsleg áhætta Hafnarfjarðarbæjar og íbúa á svæðinu, kostnaður við eftirlit og vöktun ) og umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða (hér allt frá mengun, grunnvatnsbreytingum, jarðskjálftum, orkunotkun, vatnsnotkun o.s.frv) svo eitthvað sé talið. Jú vissulega er komið inn á þessa hluti í matsskýrslu en út frá hagsmunum Carbfix/Coda Terminal.
Hefur Hafnarfjarðarbær eða önnur yfirvöld yfirleitt leyfi til að heimila niðurdælingu undir íbúðasvæði?
Hafnarfjarðarbær fer með skipulagsmál innan Hafnarfjarðar á því er ekki nokkur vafi svo langt sem það nær. Hafnarfjarðarbær getur hins vegar ekki gert hvað sem er. Bæði skipulagslögin sjálf og önnur lög takmarka hvað bærinn getur samþykkt út frá ýmsum sjónarmiðum/lögum s.s. vegna auðlindanýtingar, mengunar- og náttúruverndar en einnig vegna ýmissa hagsmuna sem fólk hefur eða vegna ýmissa hagsmunaárekstra. Þetta á einnig við um hagsmuni sem snúa að eignarétti og áhrifum á hann og svo en ekki síst á þetta við um almannahagsmuni. Undirritaður þykist geta fullyrt að þó erlend eða innlend fyrirtæki þurfi eða vilji kolefnisjafna framleiðslu sína, í stað þess að minnka losun, þá flokkist það ekki undir almannahagsmuni íbúa Hafnarfjarðar þó svo að við sem einstaklingar og Hafnfirðingar eigum að bera ábyrgð á okkar kolefnislosun og leggja okkar af mörkum á lands- og alþjóðavísu. Það síðastnefna er allt annað en að fólk og fyrirtæki í ákveðnum bæjarhluta í Hafnarfirði taki á sig áhættu vegna erlendra eða innlendra einkafyrirtækja sem þurfa að losna við sinn úrgang.
Þá er spurningin getur Hafnarfjarðarbær fyrst skipulagt svæði og selt fólki lóðir til að byggja heimili sín og fyrirtæki á, og þar með sína framtíð, og svo nokkrum árum seinna heimilað að dæla efnum undir sömu heimili og fyrirtæki. Efnum sem jafnvel valda jarðskjálftum, hækkun á grunnvatnsyfirborði, mengun og þar með jafnvel eyðilagt heimili þeirra eða gert þau verðminni. Og þar fyrir utan gert svæðið fráhrindandi sem stað til að búa á. Undirritaður, með langa reynslu af vinnu við náttúrufærði og umhverfis- og náttúruverndarmál þ.m.t. skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum, hefur aldrei áður séð að það eigi að bjóða fólki upp á að dæla efni undir lóðir þeirra og íbúðir. Og, sem verra er, framkvæmdaaðilinn hefur í raun ekki hugmynd um, aðeins ímyndaða og ágiskaða hugmynd út frá misgóðum gögnum, hverjar afleiðingarnar verða. Þetta sýna skilyrði Skipulagsstofnunar.
Framangreint kallar einfaldlega á að íbúar sem hugsanlega verða fyrir áhrifum taki sig saman og undirbúi strax að mögulega þurfi þeir að kæra bæjaryfirvöld / bæjarstjórn og aðra leyfisveitendur, veiti þau leyfi, m.a. fyrir mögulega skerðingu á eignum þeirra. Og þá undirbúa að kæra ekki bara til annarra stjórnvalda heldur einnig jafnvel beint til dómstóla. Jafnvel kemur til greina að krefjast þess að bærinn kaupi upp eignir þeirra verði leyfi veitt. Eiga íbúar á niðurdælingasvæðinu kannski bara að bíða í einhverja áratugi, meðan þeir borga af lánum af eignum sínum, og sjá hvort eitthvað gerist og hvort vöktun sýni fram á neikvæð áhrif eða ekki. Hvernig munu fasteignaauglýsingar þessara húsa hljóma í framtíðinni; Húsið er á fallegu hraunasvæði með ókeypis jarðskjálftum og óvissri mengun og jafnvel ekki útilokað að hægt verði að fá grunnvatn aukalega í kjallarann án aukakostnaðar. Þetta er ekki fyndið. Stundum verða yfirvöld að skilja og í þessu tilfelli að það eru almannahagsmunir íbúa Hafnarfjarðar að búa ,,aðeins“ við hugsanlegar og náttúrulegar náttúruhamfarir en fá ekki í ofanálag tilbúinn vanda af mannavöldum.
Loftmengun er t.d. oft hægt að laga með mengunarvörnum en annað er að laga breytingar í berggrunni og grunnvatni sem við höfum takmarkaða hugmynd um hverjar verða. Það má fullyrða að fyrir íbúa á svæðinu er alveg nóg að hafa stórt iðnaðarsvæði þ.m.t. Álverið sem nágranna? Munum að þrátt fyrir kosningar um málið þá eru sum áhrif staðbundin innan Hafnarfjarðar en önnur sameiginleg s.s. áhrif á náttúruna.
Náttúruhamfaratrygging Íslands
Þá kemur önnur spurningin; er Náttúruhamfaratrygging Íslands búinn að skrifa upp á eða ætlar hún skrifa upp á að réttur íbúa og fyrirtækja sem verða fyrir jarðskjálftaáhrifum á niðurdælingasvæðinu, í raun er ekki búið að ákveða áhrifasvæðið og kannski ekki hægt, sé 100% sá sami og annarra Íslendinga? Er einhver búinn að spyrja að þessu? Eða ætlar Náttúruhamfaratrygging að greina á milli náttúrulegra jarðskjálfta og Carbfix jarðskjálfta? Og vísa á Hafnarfjarðarbæ eða Coda Terminal vegna skemmda sem hugsanlega verða af niðurdælingunni?
Það er alveg ljóst að Hafnarfjarðarbær eða Coda Terminal / Carbfix munu aldrei taka ábyrgð á hugsanlegum skemmdum á húsum á þessu svæði. Þar mun hver vísa á annan og öll fallegu starfsleyfin og skilyrðin. Það er alveg nákvæmlega sama hverju fyrirtækið eða bærinn lofar á núverandi stundu. Ef áhrifin verða of stór þá fara hf. fyrirtæki bara á hausinn og þar með er sagan öll og eftir situr fólk með vandann og ábyrgðina. Gott nýlegt dæmi er fyrirtæki í Danmörku, með stönduga eigendur, sem sá um að geyma jarðvegsefni í þúsundum tonna á ákveðnu svæði. En svo fór óvart allt efnið á stað og ógnaði umhverfi og byggð og jú sveitarfélagið þurfti að taka til hendinni og borga því fyrirtækið ákvað að fara á hausinn. Mikil trygging það þrátt fyrir öll starfsleyfin.
Að lokum
Undirrituðum er það mjög til efs að Hafnarfjarðarbær eða önnur yfirvöld hafi yfirleitt lagalega heimild til að leyfa niðurdælingu efna undir svæði sem þegar eru í byggð, þ.e. bæði íbúðabyggð og iðnaðarsvæði, svæði sem í raun og veru eru í langtíma „eign“ eða leigu einstaklinga og fyrirtækja. Undirritaður kannast ekki við að í nokkrum lóðaleigusamningum á þessu svæði sé að finna heimild Hafnarfjarðarbæjar til að heimila dælingu á efnum undir viðkomandi lóðir fólks. Fyrir utan allt sem hér hefur verið sagt eiga Hafnfirðingar ekki að bera neinn óræðan og ófyrirséðan kostnað eða áhættu af þessu Coda Terminal brölti. Fólk á heldur ekki að þurfa að þola litla jarðskjálfta sem kannski valda „engum“ skammtíma skemmdum af því að einhverju fyrirtæki finnst það í lagi.
Undirritaður leggur til að Hafnarfjarðarbær slaufi þessum hugmyndum Coda Terminal / Carbfix strax. Hér er ekki verið að segja að aðferðin sem slík geti ekki átt rétt á sér heldur að hún á ekkert erindi inn á þetta svæði. Hér á einfaldlega að láta allan vafa um áhrif framkvæmdanna koma íbúum og fyrirtækjum í Hafnarfirði, ekki síst á Völlunum, svo og náttúru svæðisins til góða.
Trausti Baldursson
Höfundur er líffræðingur og fyrrverandi forstöðumaður þáverandi Vistfræði- og ráðgjafadeildar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Höfundur hefur einnig starfað fyrir Náttúruverndarráð, Náttúruvernd ríkisins og Umhverfisstofnun (laga og stofnanabreytingar). Höfundur hefur einnig komið að bæjarmálum s.s. setið í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar.