Í ársbyrjun 2007 sá ég fyrstu drög að tvíburaturnunum í Borgartúninu. Samkvæmt lýsingu arkitektanna sem unnu drögin átti að mynda þar nokkurs konar kaffihúsastemningu á svæðinu sem átti að vera í líkingu við það sem fólk þekkti á Ítalíu. Þó svo að 2007 andi hafi ríkt á þeim tíma hlógum við á vinnustaðnum mínum yfir þessari lýsingu. Á endanum risu turnarnir þó upp en kaffihúsastemmning hefur þó aldrei verið til staðar enda gerðu turnarnir svæðið í kring einskonar skuggahverfi fyrir íbúa þess. Verktakarnir sem stóðu að byggingu þeirra hafa aftur á móti líklegast ávaxtað pund sitt vel, þó að mörgu leyti á kostnað allra annarra á svæðinu fyrir utan kannski þá sem eru staðsettir eru í turnunum.
Þegar ég sá tillögur um breytingu á miðbæ Hafnarfjarðar rifjuðust þessi drög upp fyrir mér. Miðbær Hafnarfjarðar þótti í eina tíð meðal fegurstu miðbæja á landinu. Á tíunda áratugnum var ákveðið að byggja turn þrátt fyrir að meira en helmingur bæjarbúa legðist gegn því með undirskriftarlista. Að auki var nokkrum árum síðar ákveðið að breyta túninu fyrir framan það sem þá var Sparisjóður Hafnarfjarðar – þar sem hægt var að sitja og njóta útsýnis út á sjóinn – í hellulagt torg sem stendur stöðugt í skugga bygginganna í kringum það, eins og hálfgerður bakgarður Domínós pizzastaðarins sem er meðal bygginga sem skyggja á útsýni að sjónum. Það er sorglegt að fylgjast með vel meinandi fólki bisast við að setja upp miðbæjarstemningu á þessum bletti sem er umkringdur háum byggingum.
Nú virðist áætlun bæjarstjórnar vera að reka náðarhöggið á miðbæ Hafnarfjarðar. Samkvæmt nýbirtum tillögum stendur til að reisa fleiri stórhýsi í miðbænum og meðfram sjónum. Eins og 2007 er nú reynt að selja hugmyndina með tilvísunum í stemningu eins og finna má erlendis, og þá vísað til Nyhavn í Kaupmannahöfn. Staðreyndin er þó sú að Hafnfirðingar sjá ekki lengur sína eigin höfn í framhaldinu, heldur líklegast aðeins nokkrir ferðamenn og fólk sem leigir skrifstofur við hafnarbakkann. Auk þess sjást kennimerki bæjarins ekki lengur nema frá örfáum stöðum, væntanlega hannaðir með ferðamenn í huga. Verði þessar tillögur að veruleika munu nokkrir verktakar hagnast verulega á kostnað allra bæjarbúa (sem þurfa jafnvel að borga með sér í formi dýrra bílastæða), nema auðvitað þeirra sem kaupa af verktökunum þessar nýju byggingar. Því ættu Hafnfirðingar að mótmæla þessum áætlunum kröftuglega.
Már Wolfgang Mixa,
fjármálafræðingur og íbúi í miðbæ Hafnarfjarðar.