Á morgun verður kosið til bæjarstjórnar hér í okkar góða bæ, Hafnarfirði. Við í Framsókn höfum sýnt það í verki að við stöndum með fólki, styðjum við atvinnulíf og stöndum við það sem við segjum. Við höfum lækkað álögur á fjölskyldufólk, byggt upp innviði og fjölskylduvænt umhverfi ásamt því að hefja kröftuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um allan bæ eftir of mörg mögur ár.
Í framboði fyrir Framsókn í Hafnarfirði er duglegt og gott fólk. Listinn hefur á að skipa hópi fólks með breiða þekkingu og reynslu. Þar er breitt aldursbil, enda er það okkar sýn að í Hafnarfirði eigi að vera gott að alast upp, hér á að vera gott fyrir ungt fjölskyldufólk að búa og hér á að vera gott að eldast og njóta efri áranna. Það er það svo sannarlega og við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð að byggja upp og undir slíkt samfélag. Samfélag fyrir alla.
Oddviti listans er Valdimar Víðisson skólastjóri í Öldutúnsskóla sem jafnframt hefur verið formaður fjölskylduráðs á því kjörtímabili sem nú er að líða. Valdimar er mér ekki bara góður vinur, hann er góður og traustur samstarfsmaður sem ég veit að gefur ekkert eftir í því verkefni að byggja hér upp gott og sanngjarnt samfélag fyrir fólk og fyrirtæki. Með Valdimar í forystu verður bæjarstjórn Hafnarfjarðar öflugri, betri og áherslan verður á því sem mikilvægast er – fólkinu í bænum.
Við í Framsókn berjumst fyrir góðum málum og höfum góða sögu að segja eftir síðustu fjögur ár og stöndum sterk málefnalega.
Kæru bæjarbúar, ég styð og treysti Valdimari Víðissyni til góðra verka á næsta kjörtímabili.
Höldum áfram að byggja upp gott fjölskylduvænt samfélag til framtíðar hér í Hafnarfirði. Framtíð Hafnarfjarðar ræðst á miðjunni – XB.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
þingmaður Framsóknar