fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirUmhverfiðEr friðun Ástjarnar orðin tóm?

Er friðun Ástjarnar orðin tóm?

Ólöf Björnsdóttir skrifar

Ástjörn og umhverfi hennar var friðlýst 1978 vegna mikils fuglalífs við tjörnina. Fugla- og náttúrufræðingar börðust fyrir því ásamt almenningi að friðunin yrði að veruleika og bæjarstjórn Hafnarfjarðar hlustaði á það. Friðlandið varð hinsvegar mun minna en stefnt hafði verið að og 1996 var ákveðið að stækka það með fólkvangi, því bæjarstjórnin féllst á þá skoðun að óbyggt væri þetta land verðmætast fyrir Hafnfirðinga. Hefði hún ekki gert það væri Ástjörn og kvosin sem hún er í ekki nema svipur hjá sjón.

Nú eru aftur á móti aðrir tímar og meirihluti bæjarstjórnar í þessum gamalgróna bæ hefur ekki meiri tilfinningu fyrir friðun Ástjarnar en svo að hann gerir það að baráttumáli sínu að fyrirhugað knatthús Hauka, 9.900 m² að stærð með 25 metra mænishæð auk 900 m² samtengdrar þjónustubyggingar, rísi alveg við mörk friðlandsins, skammt frá vatnsbakkanum. Húsið verður stærra en Skessa FH og fylgir því fjöldi bílastæða. Séð af göngustígnum við tjörnina myndi það helst líkjast verslunarmiðstöð. Lengra frá hugmynd fyrri bæjarstjórna um griðastað úti í náttúrunni er varla hægt að komast.

Ekki fer á milli mála að Ástjarnarkvosin er einstök á höfuðborgarsvæðinu og allir sem til þekkja vita að risabygging eins og fyrirhugað knatthús á ekki heima við bakka tjarnarinnar, því þar hefði hún óafturkræf áhrif á umhverfið með stærð sinni einni saman. Öll sú náttúrulega víðátta sem gerir Ásfjallið og kvosina svo verðmæta yrði þar með að engu gerð. Engin veit heldur með vissu hvort þessi stóra og þunga bygging hefði t.d. þau áhrif að vatn tæki að flæða í auknum mæli úr tjörninni en óheimilt er að breyta náttúrulegu vatnsborði hennar skv. friðlýsingunni 1978. Allt ber þetta að sama brunni: núverandi meirihluti bæjarstjórnar metur Ástjarnarkvosina ekki mikils.

Verið er að vinna umhverfismat vegna þessa og fyrir liggur matsáætlun. Þar er gerð grein fyrir tveimur valkostum fyrir knatthúsið, A og B, og einnig núll-kosti, þ.e.a.s. óbreyttu ástandi sem bærinn tekur þó fram að komi ekki til greina. Nýlega var hinsvegar úthlutað lóðum undir íbúðarhús sem skarast við valkost B, fjær tjörninni skv. deiliskipulagi 2010, svo hann er úr sögunni. Eftir stendur þá kostur A, þ.e. knatthús við bakka Ástjarnar eins og ætlunin hefur frá upphafi verið. Hvernig umhverfismatið kemur til með að líta út er svo annað mál, því í lögum nr. 112/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er gert ráð fyrir a.m.k. tveimur raunhæfum kostum í slíku mati.

Haukar gáfu bænum umræddar lóðir sem framlag sitt til knatthússins og hefur byggingarréttur á þeim verið seldur fyrir háa fjárhæð. Það er skiljanlegt að Haukar vilji knatthús en staðsetningu þess þarf augljóslega að hugsa upp á nýtt.

Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Landvernd o.fl. hafa látið í ljós efasemdir um að knatthúsið eigi rétt á sér nálægt tjörninni. Hafnarfjarðarbær er leyfisveitandi og framkvæmdaraðili hússins og því báðum megin borðsins, og hann sér einnig um gerð matsáætlunar og umhverfismats. Umhverfisstofnun virðist ekki treysta bænum alltof vel því hún lýkur umsögn sinni um matsáætlunina með því að hvetja til að gerð verði ítarleg, óháð rannsókn á áhrifum knatthússins á Ástjörn.

Að mati okkar, sem teljum að ekki eigi að víkja frá friðun Ástjarnar á nokkurn hátt, hefur meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í bæjarstjórn sýnt óbilgirni á öllum stigum þessa máls. Vonandi verður til nýr meirihluti að loknum bæjarstjórnarkosningum sem er í betra jarðsambandi og telur ekki eftir sér að hlusta á bæjarbúa.

Fh. Vina Ástjarnar,
Ólöf Björnsdóttir

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2