fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanEru allir velkomnir í Hafnarfjörð?

Eru allir velkomnir í Hafnarfjörð?

Árni Þór Finnson skrifar

Bæjarlistinn vill auðugt, blómlegt og fjölþjóðlegt mannlíf í Hafnarfirði og gera öllum kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í því skyni lagði Bæjarlistinn m.a. fram tillögu í fjárhagsáætlunargerð 2022 að aukið yrði við stöðugildi verkefnastjóra fjölmenningar úr 50% í 100%. Það er nauðsynlegt að efla starf verkefnastjóra fjölmenningar frá því sem nú er til þess að styðja við það mikilvæga starf sem hann sinnir.

Við gerð fjárhagsáætlunar síðasta árs óskaði fjölmenningarráð eftir því að stöðugildi yrði aukið úr 50% í 100% en sitjandi meirihluti hafnaði þeirri tillögu. Það kemur furðulega fyrir sjónir að sú tillaga hafi ekki verið samþykkt þegar það liggur fyrir að innflytjendur, búsettir í Hafnarfirði, voru tæplega 4.400 talsins í Hafnarfirði í upphafi árs 2021 samkvæmt tölum Hagstofunnar, það gerir um 15% af heildaríbúafjölda bæjarins.

Verkefnastjóri fjölmenningar ber ábyrgð á framkvæmd ákvarðana sem teknar eru í fjölmenningarráði, rekstri og stjórnsýslu þess. Ráðinu sjálfu er svo ætlað að tengja saman fjölmenningarleg samfélög í Hafnarfirði, byggja brýr á milli Íslendinga og innflytjenda, koma málefnum innflytjenda á framfæri og stuðla að friðsamlegu fjölmenningarlegu samfélagi eins og það er orðað í samþykkt fyrir ráðið.

Bæjarlistinn vill taka vel á móti fólki, sama hvaðan það kemur. Það viljum við gera með því að efla þjónustu við einstaklinga sem standa frammi fyrir þeirri áskorun að aðlagast nýju samfélagi. Hafnarfjörður, mannlífið, vinnumarkaðurinn og samfélagið í heild sinni getur auðveldlega farið á mis við þá hæfni og þekkingu sem innflytjendur búa yfir og hafa tileinkað sér yfir ævina, í leik, námi og starfi, ef það er ekki nægjanleg þjónusta til staðar sem gerir þeim kleift að vera virkir þátttakendur í daglegu lífi.

Bæjarlistinn vill að Hafnarfjörður sé fyrir alla. X-L.

Árni Þór Finnson,
skipar 3. sæti á lista Bæjarlistans í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2