Nýlega gáfu Samtök iðnaðarins (SI) út nýjustu talningu sína á íbúðum í byggingu sem sýnir mikil umsvif á höfuðborgarsvæðinu. Í Kópavogi, sem er það sveitafélag á Íslandi sem er líkast Hafnarfirði að íbúðarfjölda, eru 1.081 íbúð í byggingu. Garðbæingar byggja 637 íbúðir og í Mosfellsbæ teljast 510 íbúðir vera í byggingu. Í Reykjavík telja Samtök Iðnaðarins svo 2.600 íbúðir í byggingu.
Íbúðarhúsnæði sprettur upp um allt höfuðborgarsvæðið.
Stærsta undantekningin frá þessu er í Hafnarfirði þar sem SI gat einungis fundið 93 íbúðir í byggingu í póstnúmer 221 og heilar ellefu íbúðir í póstnúmeri 220!
Hafnfirðingar geta gleymt því að teljast hálfdrættingar á við Kópavogsbúa, við náum ekki tíund af þeirra uppbyggingu.
Hafnarfjarðarbær stóð hreyfingarlaus yfir vaxtaskeiðið 2014-2019 á meðan önnur sveitafélög tóku risaskref til þess að skapa ný búsetutækifæri fyrir landsmenn.
Skipulagsvinna er tímafrek og þær íbúðir sem verið er að byggja í dag eru uppskera þolinmæðisvinnu í skipulagi undanfarinna ára. Núverandi uppskerubrestur Hafnarfjarðar er bein afleiðing þeirrar pólitísku stefnu sem meirihlutinn hefur fylgt undanfarin ár og sett sínar áherslur, fjármagn og tíma starfsmanna í. Þetta er ekki óheppni eða tilviljun heldur slæmar ákvarðanir sem hafa slæmar afleiðingar.
Í byrjun árs 2016 var gefin út frábær skýrsla faghóps er fjallaði um tækifæri til þéttingar byggðar innan bæjarins og kosti þess að leggja áherslu á þétta, skemmtilega blandaða byggð á kostnað útþenslu byggðar. Þar eru tilgreindir margir áhugaverðir þróunarreitir innan bæjarins sem gætu skapað frábæra búsetukosti í næsta nágrenni við þjónustu og verslun og vel tengda við almenningssamgöngur.
Því miður var skýrslunni fylgt eftir með hangandi hendi og áhugaleysi með ofangreindum afleiðingum. Hefðu stjórnvöld í Hafnarfirði haft meiri Viðreisn í sér væru hér kranar á hverju strái eins og hjá nágrönnum okkur að byggja nýja þétta hafnfirska byggð.
Það skiptir nefnilega máli hver stjórnar.
Óli Örn er varaáheyrnarfulltrúi Viðreisnar í skipulags og byggingarráði.
Jón Ingi er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn.
Greinin birtist í 15. tbl. Fjarðarfrétta, 18. apríl 2019