fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanFerðaþjónusta fatlaðs fólks - Vöndum til verka

Ferðaþjónusta fatlaðs fólks – Vöndum til verka

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Ferðaþjónusta fatlaðs fólks er mikilvæg þjónusta sem á að vera að sniðin að þörfum notenda. Um viðkvæma þjónusta er að ræða sem verður að ganga hnökralaust fyrir sig. Frá árinu 2014 hefur Hafnarfjörður tekið þátt í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um rekstur ferðaþjónustunnar. Eftir byrjunarerfiðleika hefur byggst upp mikil reynsla og  þekking á þessari mikilvægu þjónustu sem brýnt er að byggja á.

Óljós ávinningur og markmið

Fjölskylduráð samþykkti á síðasta fundi að Hafnarfjarðarbær myndi segja sig frá samstarfinu og fara í sjálfstætt útboð. Undirritaður greiddi atkvæði gegn þessari tillögu. Öryggi notenda og þjónustan á alltaf að vera í forgrunni og samfella í rekstrinum er mikilvæg forsenda þess að vel takist til í þjónustunni. Óvíst er hvort Hafnarfirði muni bjóðast betri kjör en í sameiginlegu útboði. Óljós fjárhagslegur ávinningur af breyttu rekstrarfyrirkomulagi má ekki verða til þess að setja þessa mikilvægu þjónustu í uppnám. Hafnarfjarðarbær hefur ekki lagt neitt sjálfstætt mat á hagkvæmni þess að fara í sjálfstætt útboð á þjónustunni á móti því að taka þátt í sameiginlega útboðinu. Einnig hefur verulega skort á samráð við notendur þjónustunnar vegna ákvörðunarinnar. Markmið fjölskylduráðs varðandi þjónustuna eru óljós og æskilegt er að framkvæma þjónustukönnun meðal notenda í Hafnarfirði áður en þessi ákvörðun er tekin í bæjarstjórn.

Óþarfa áhætta

Frá því undirbúningur fyrir nýtt sameiginlegt útboð hófst hefur undirritaður verið þeirrar skoðunar að Hafnarfjörður ætti að halda samstarfinu áfram. Skynsamlegra væri að halda áfram að vinna að þróun og eflingu þjónustunnar á þessum vettvangi þar sem myndast hefur mikil reynsla og þekking á viðfangsefninu frekar en að byrja aftur upp á nýtt. Samfella er mikilvæg í þjónustu sem þessari og illa ígrundaðar ákvarðanir mega ekki setja þjónustuna í uppnám. Það er mín skoðun að ákvörðun fjölskylduráðs sé alls ekki nógu vel ígrunduð og að verið sé að taka óþarfa áhættu með þjónustu sem margt fatlað fólk treystir á. Þess vegna hvet ég bæjarstjórn til þess að endurskoða ákvörðunina og fari vel yfir allar forsendur hennar með hagsmuni notenda að leiðarljósi.

Árni Rúnar Þorvaldsson
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2