Bæjarlistinn vill leiðrétta laun og bæta starfsumhverfi leikskólafólks. Auka samráð í ákvarðanatöku við starfsfólk og foreldra, fara í markvissar aðgerðir til að minnka álag á starfsfólk, t.d. með skilgreiningu hámarksfjölda barna á hvern starfsmann. Bjóða uppá sveigjanlegri kaup á dvalarstundum, en jafnframt að vinda ofanaf umræðu um þjónustuhlutverk leikskóla gagnvart foreldrum og atvinnulífi.
Hlutfall háskólamenntaðra leikskólakennara í Hafnarfirði er komið niður í 22%, en samkvæmt lögum þá eiga tveir þriðju hlutar leikskólastarfsmanna að vera háskólamenntaðir kennarar, eða 67% að lágmarki.
Raunin er ekki sú að of fáir mennti sig í uppeldis- og kennslufræðum, heldur kjósa alltof fáir að starfa innan leikskólanna þegar hægt er að fá hærri laun í nánast hvaða starfi sem er, jafnvel með mun minni ábyrgð. Fyrir vikið starfa fjölmargir ófaglærðir í leikskólum. Þetta fólk er líka á allt of lágum launum, sem veldur því að starfsmannavelta í leikskólum er allt of mikil. Það er ekki nóg að launin séu of lág heldur erum við í Hafnarfirði að bjóða uppá lægri kjör en nágrannasveitarfélög okkar, sem nemur 30-35.000 á mánuði.
Í leikskólum á sér stað gríðarlega mikilvægt faglegt starf sem þarf að halda vörð um og styðja við. Starfsfólk leikskólanna heldur faglegu starfi uppi, það á að vera ánægt í vinnunni, með sanngjörn laun, viðunandi starfsálag og starfsmannavelta á leikskólum bæjarins ætti að vera í lágmarki. Með því að fjárfesta í starfsfólki leikskólanna náum við að þjónusta börnin okkar enn betur.
Það á að vera eftirsóknarvert að starfa í skólum Hafnarfjarðar.
Hulda Sólveig Jóhannsdóttir,
skipar 2. sæti á lista Bæjarlistans