Samfylkingin, jafnaðarflokkur Íslands vill sjá sterkan Hafnarfjörð þar sem allir íbúar eiga kost á góðri grunnþjónustu og öflugu stuðnings- og velferðarkerfi. Jafnaðarfólk vill bæ þar sem bæði ungt fólk og eldra fólk nýtur grunnþjónustu óháð efnahag og við viljum byggja upp framsækið atvinnulíf. Í samræmi við þessi stefnumið okkar lagði Samfylkingin fram fjölda tillagna við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2023 sem voru að fullu fjármagnaðar með sérstökum tekju- og hagræðingartillögum sem við lögðum fram.
Metnaðarleysi og skortur á framtíðarsýn
Fjárhagsáætlun er mikilvægasta stjórntæki bæjarstjórnar. Þar eru línurnar lagðar fyrir næsta ár og fjárhagsáætlun býr til ramma sem bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins verður að starfa innan. Í fjárhagsáætlun birtast áherslur þess meirihluta sem stýrir málum hverju sinni. Nýendurreistur meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks samþykkti fyrstu fjárhagsáætlun sína frá kosningum sl. vor á síðasta bæjarstjórnarfundi. Því miður verður að segjast að metnaður, framtíðarsýn og ábyrg fjármálastjórn eru ekki einkennismerki fjárhagsáætlunarinnar.
Týndu málin
Málefnasamningur meirihlutans er rýr í roðinu og fyrsta fjárhagsáætlun hans er af sama meiði. Þar er fátt sem hönd er á festandi, fáar sem engar nýjar hugmyndir um sókn eða endurbætur í velferðarmálum og algjört tómahljóð hvað varðar mál sem hátt hafa farið í umræðunni að undanförnu, einkum fyrir tilverknað Samfylkingarinnar. Ærandi þögn ríkir um stórmál eins og flutning Tækniskólans í Hafnarfjörð, nýtt bókasafn í Firði og stórverkefni Hafnarfjarðarhafnar í sambandi við Carbfix verkefnið sem er risaverkefni í loftslagsmálum. Svo nefnd séu nokkur dæmi um týndu mál þessarar fjárhagsáætlunar.
Pólitísk þröngsýni
Tillögur Samfylkingarinnar hefðu sannarlega orðið til þess að stoppa í göt fjárhagsáætlunar meirihlutans. Því miður varð það ekki raunin því fulltrúar meirihlutans höfnuðu þeim öllum, stórum sem smáum. Um var að ræða fjölbreyttar tillögur líkt og hraðari fjölgun félagslegra íbúða, 500 milljón króna fjárfestingu Hafnarfjarðarhafnar vegna Carbfix verkefnisins, hækkun frístundastyrks og 30 milljón króna framlag til íslenskukennslu fyrir fólk af erlendu bergi brotið í Hafnarfirði auk fjölda annarra. Þessi pólitíska þröngsýni og það metnaðarleysi sem birtist í fjárhagsáætlun meirihlutans sýnir meirihluta í nauðvörn; sex mánuðum eftir kosningar!
Árni Rúnar Þorvaldsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands