Verkefnin eru jafn misjöfn og þau eru mörg í stóru bæjarfélagi eins og okkar hér í Hafnarfirði. Eitt af þessum verkefnum er fjölgun félagslegs húsnæðis. Þar er verk að vinna og verkefnið er ærið. Ég segi ærið vegna þess að við sitjum uppi með fortíðarvanda; vanda sem ekki var tekið á þegar þess þurfti. Hér var engin fjölgun í of mörg ár.
Engin fjölgun frá 2009-2016
Á árunum fyrir hrun var fjöldi félagslegs húsnæðis í Hafnarfirði 9,5 íbúðir á hverja þúsund íbúa, þegar landsmeðaltalið var 14,6. Það er því ansi dapurleg staðreynd að á árunum 2009-2016 hafi ekki verið fjárfest í félagslega húsnæðiskerfinu í Hafnarfirði. Sami fjöldi íbúða var árið 2008 og árið 2016. Ein íbúð var seld úr kerfinu árið 2012 en önnur keypt í hennar stað árið 2013. Eru það einu hreyfingarnar yfir þetta tímabil. Félagslegu húsnæði hefur hins vegar fjölgað markvisst frá árinu 2016. Keyptar voru 14 íbúðir á síðasta ári og munum við halda áfram að fjárfesta í félagslega húsnæðiskerfinu fyrir 500 milljónir króna á ári næstu árin. Samhliða munum við hefja vinnu við að skoða hvernig nýta megi fjármagnið sem best þannig að hægt sé að fjölga íbúðum hraðar en gert hefur verið. Samþykkt var að hefja slíka vinnu á síðasta fundi fjölskylduráðs.
Vond pólitísk ákvörðun
Þrátt fyrir að ekkert hafi verið fjárfest í félagslega húsnæðiskerfinu okkar á árum 2009-2016, fjárfesti bæjafélagið í ýmsum öðrum innviðum samfélagsins fyrir mörg hundruð milljónir króna. Það var vond pólitísk ákvörðun þess tíma að láta fjölgun félagslegra íbúða sitja á hakanum. Í þessu eins og öðru, þar sem uppsafnaður vandi er til staðar, mun taka einhvern tíma að ná jafnvægi. Ég bind vonir við að okkur muni takast að ná utan um verkefnið með áframhaldandi vinnu, fjárfestingu og nýjum leiðum. Að því munum við vinna.
Ágúst Bjarni Garðarsson
formaður bæjarráðs
Greinin birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnfirðinga 31. janúar 2018