fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanFjölskylduvæn leikskólamál eru hagur okkar allra

Fjölskylduvæn leikskólamál eru hagur okkar allra

Hildur Björg Vilhjálmsdóttir og Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir, frambjóðendur Pírata skrifa.

Hvað fela fjölskylduvæn leikskólamál í sér og hvernig eru þau hagur okkar allra?

Í Hafnarfirði búa um 8.000 börn, en þar af eru um 2.000 börn á leikskólaaldri. Leikskólaaldurinn er mikið þroskaferli en þá læra börnin margt sem undirbýr þau fyrir skólann og lífið framundan. Það er því mikilvægt að vel sé staðið að leikskólastarfi, starfsfólk og börn séu ánægð og öll fái góða næringu fyrir líkama og sál. Starfsfólk og starfsumhverfi leikskóla eru mikilvæg fyrir lífsgleði og lífsgæði barnanna okkar.

Því er óafsakanlegt að leikskólastarfsfólk í Hafnarfirði sé á mun lægri launum en starfsfólk í næstu sveitarfélögum, um því sem nemur um 30 – 35.000 krónum á mánuði. Lakari launakjör valda mönnunarvanda því Hafnarfjörður er ekki samkeppnishæfur. Það er því beinlínis hagur leikskólastarfsfólks sem býr í Hafnarfirði að starfa frekar á leikskólum í nágrannasveitarfélögunum. Áhrif þess valda foreldrum bæjarins vandkvæðum, sem og atvinnulífinu. Því er hagur samfélagsins alls að leiðrétta laun leikskólastarfsfólks.

Vinnumenning á Íslandi krefst markvissra úrlausna í leikskólamálum. Í leikskólamálum þarf að auka samráð við foreldra og starfsfólk áður en ákvarðanir eru teknar. Skipulag þarf að vera sveigjanlegt og í takt við þær breytingar sem eru að verða á vinnumarkaði og starfsfólki þarf að umbuna réttilega fyrir vinnutíma sinn. Foreldrar og starfsfólk kalla eftir áherslum, lausnum og útfærslum sem mikilvægt er að bregðast við en þar ber einna helst að finna þurfi leiðir til  að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu.

Píratar í Hafnarfirði leggja áherslu á að styðja við fjölskylduvæna leikskóla þar sem starfsfólk er ánægt og nær endum saman. Píratar í Hafnarfirði vilja einnig styðja við og styrkja samveru fjölskyldna og bjóða upp á stytta leikskólaviku barna með auknum sveigjanleika í vistunartíma. Þetta viljum við gera í samráði við fagfólk og út frá forsendum faglegs og mikilvægs leikskólastarfs, fyrir fjölskylduvænan Hafnarfjörð.

Hildur Björg Vilhjálmsdóttir og
Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir,
frambjóðendur í 2. og 4. sæti fyrir Pírata í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2