fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirUmhverfiðFlokkum meira í meistaramánuði!

Flokkum meira í meistaramánuði!

Helga Ingólfsdóttir skrifar

Nú fer meistaramánuður í hönd og þá er gott að setja sér ný markmið. Margir ákveða að bæta sig í ræktinni og borða hollari mat. Það er verðugt verkefni að flokka meira og minnka plastnotkun og ég hvet Hafnfirðinga til að setja sér ný markmið í endurvinnslu í meist­aramánuði.

Í Hafnarfirði eru 7 grenndar­gámastöðvar sem taka á móti plasti, gleri og pappír. Í mið­bænum við Fjörð, við Fjarðar­kaup, Sólvang, Bónus á Völlunum, 10-11 á Melabraut og í Setbergi. Í Breiðhellu 8-10 er síðan stór móttökustöð sem er opin frá 8-19.30 á virk­um dögum.

Sorpa hefur verið að innleiða nýja grenndargáma sem eru mjög snyrtilegir og í undirbúningi er að setja umgjörð í kringum grenndargámana svipað og sést á myndinni. Sumum finnst opin á nýju grenndargámunum vera of lítil en þau eru samkvæmt alþjóðlegum örygg­isstöðlum sem segja að opið megi ekki vera stærra en 20 cm í þvermál, m.a. til að koma í veg fyrir að börn skríði inn í gámana.
Hjá Gámaþjónustunni er hægt að panta endurvinnslutunnu sem tekur á móti plasti, málmum, gleri, pappír og um­­búðum og þessi þjónusta hentar þeim sem eiga erfitt með að komast á grennd­arstöðvarnar.

Umhverfis- og fram­kvæmda­ráð er nú með í skoðun hvort núverandi stað­setn­ingar á grenndargámum séu hentugar og einnig stend­ur til að fjölga grennd­arstöðv­um. Ennfremur er verið að skoða þær leiðir sem önnur sveitarfélög hafa verið að fara eins og Kópa­vogur sem nú tekur við plasti í blátunnuna og til­rauna­verk­efni sem Sorpa er með í sam­vinnu með Seltjarnar­nes­bæ um hirðingu á plasti frá heima­húsum.

Skilum plasti og gleri til endurvinnslu og notum fjölnotapoka við innkaup

Á heimasíðu Sorpu eru margvíslegar upplýsingar og þar kemur meðal annars fram að árlega fara um 30 kg af plasti í urðun frá hverjum íbúa á höfuð­borgarsvæðinu og minna en 2 kg af plasti skila sér til endurvinnslu. Þarna er verk að vinna fyrir okkur íbúana að taka höndum saman og í fyrsta lagi minnka plastnotkun og í öðru lagi skila í flokkun öllum plastumbúðum en efnið er núna ýmist nýtt til endurvinnslu eða orkuvinnslu í Svíþjóð. Fyrir hvert kg af plasti sem fer til endurvinnslu spar­ast 2 kg af olíu. Fjölnotapokar þeg­ar við förum í búðina er eitt jákvætt og gott skref til að minnka plastnotkun sem margir hafa tileinkað sér. Það er líka mikilvægt að flokka gler en allt gler er endurnýtanlegt sem t.d. fyll­ingarefni í hljóðmanir og fleira. Efnið kemur í staðinn fyrir möl og þannig er dregið úr námugreftri og þeim áhrifum sem slíkt hefur á umhverfið.

Við innleiðingu blátunnu fyrir nokkr­um árum jókst flokkun á pappír veru­lega og nú er til skoðunar hver verða næstu skref í bættri þjónustu við íbúa þannig að stigin séu örugg skref til aukinnar endurvinnslu fyrir umhverfið og komandi kynslóðir.

Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs.

Greinin birtist í bæjarblaðinu Fjarðarfréttum 2. febrúar 2017.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2