Uppbyggingin á Völlunum hefur verið hæg eftir bankahrun. Hraunvallaskóli var löngu sprungin, málum bjargað í horn með kennslu í gámum og ekki lengur pláss á skólalóðinni til að fjölga þeim. Á síðasta ári var loksins hafist handa við byggingu Skarðshlíðarskóla eftir baráttu foreldrafélagsins. Mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg hafa ekki skilað sínu eins og lofað var, þar sem Reykjanesbrautin bíður enn tvöföldunar á einum hættulegasta kafla hennar. Bygging leikskólans við Bjarkarvelli var brýn og stytti langa biðlista í stóru barnahverfi. Nýtt körfuboltahús Hauka á Ásvöllum gegnir stóru hlutverki í íþróttalífinu og mætir sömuleiðis þörf um kennsluhúsnæði í íþróttum. Þá er nýbyggt safnaðarheimili Ástjarnarsóknar kærkomið og skapar ný tækifæri í fjölbreyttu félagsstarfi. Það sem sköpum skipti um þennan árangur er samstaða og þrýstingur frá í búunum á bæjaryfirvöld.
Hjúkrunarheimili og háspennulínur
En stærsta framkvæmdin á Völlunum var blásin af strax eftir kosningar árið 2014. Þá ákvað Íhaldið í meirihlutanum að hætta við byggingu hjúkrunarheimilis fyrir 60 íbúa, sem var búið að teikna og setja í útboðsferli. Þessari framkvæmd átti að fylgja heilsugæsla, sem hefði stórbætt aðgengi allra Hafnfirðinga að góðri heilbrigðisþjónustu, ekki síst fyrir barnafólkið og eldri borgara. Þá hefur uppbygging í Skarðshlíðinni verið afar róleg, þó lóðirnar hafi verið tilbúnar til úthlutunar árið 2008 og lítið verið gert til að bæta aðkomuna og umhverfið þar. Loforð og viljayfirlýsingar um færslu háspennulínunnar, sem er nánast rétt við heimilisdýr margra íbúa, hafa verið svikin ítrekað og núverandi meirihluti býður ekki upp á neinar lausnir í þeim efnum. Svo lofar Íhaldið í orði byggingu knatthúss á Ásvöllum fyrir 3 milljarða, en engin innistæða fyrir loforðunum og finnst ekki stafkrókur um það í fjárhagsáætlun bæjarins.
Fólk í fyrirrúmi
Nýir íbúar bætast stöðugt í hverfið okkar á Völlunum, sem brátt verður fullbyggt og er einstakt fyrir nálægð við óspillt hraunið, fallega náttúru og útivistarmöguleika. Samfylkingin leggur áherslu á að ljúka uppbyggingu hverfisins, fjölga grænum svæðum, fegra og byggja upp öfluga þjónustu á Völlunum með fólk í fyrirrúmi.
Stefán Már Gunnlaugsson
skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.
Greinin birtist í 17. tbl. Fjarðarfrétta 2018.