fbpx
Sunnudagur, nóvember 17, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanFólkið í forgang – heimilin og fólk í viðkvæmri stöðu

Fólkið í forgang – heimilin og fólk í viðkvæmri stöðu

Kórónaveirufaraldurinn sem veldur Covid-19 sjúkdómnum sýnir svo ekki verður um villst fram á mikilvægi opinberrar velferðarþjónustu. Á tímum þegar samfélagið lendir í hremmingum þá skiptir öllu máli velferðarþjónusta hins opinbera virki sem best og sé í stakk búin til þess að takast á við vandann.

Á sama tíma og stjórnvöld og samfélagið gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hefta útbreiðslu veirunnar þá eru ríki og sveitarfélög byrjuð að huga að aðgerðum til þess að milda höggið af efnahagslegum afleiðingum faraldursins. Höggið kemur þyngst niður á þeim sem eru í veikri stöðu fyrir og þess vegna þarf að huga sérstaklega að þeim hópum. Undirritaður telur brýnt að bregðast við með því að íþyngjandi gjaldskrárhækkanir fyrir aldraða og öryrkja frá síðustu áramótum verði dregnar til baka og að leiga félagslegra íbúða verði lækkuð hjá þeim hópi þar sem greiðslubyrðin hækkaði umfram 2,5% við síðustu áramót.

Mæta þarf rekstrarvanda heimila

Forsenda þess að samfélagið nái að rétta úr kútnum þegar atvinnulífið kemst af stað á nýjan leik er að stjórnvöld komi ákveðið til móts við fyrirtækin, fólkið og heimilin. Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar miðuðu fyrst og fremst að því að koma fyrirtækjum til bjargar en Samfylkingin hefur lagt ríka áherslu á að stjórnvöld mæti rekstrarvanda heimilanna. Þar hefur Samfylkingin lagt til hækkun barnabóta og að barnabótaaukinn verði ekki tengdur við tekjur ársins 2019. Samfylkingin hefur einnig lagt til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og að miðað verði við krónutöluhækkanir lífskjarasamningsins. Atvinnuleysi mældist 4,2% í febrúar í Hafnarfirði og ljóst það mun fara hækkandi á næstunni.

Gjaldskrárhækkanir verði dregnar til baka

Við gerð fjárhagsáætlunar þessa árs hækkuðu gjaldskrár fjölskyldu- og barnamálasviðs bæjarins. Heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækkaði um 24% og ferðaþjónusta aldraðra hækkaði um rúmlega 100%. Þessum gjaldskrárhækkunum var ætlað að auka tekjur bæjarsjóðs um rúmar 5 milljónir, en vega núna þungt hjá öldruðum og öryrkjum. Mikilvægt er að þær verði dregnar til baka.

Greiðslubyrði leigjenda hækki ekki umfram 2,5%

Einnig var við síðustu fjárhagsáætlunargerð ákveðið að hækka leigu félagslegra íbúða um 21% hjá bænum. Breyttar reglur um sérstakar húsaleigubætur urðu til þess að greiðslubyrðin hækkaði mis mikið hjá fólki eftir aðstæðum. Í þeim tilvikum þar sem greiðslubyrðin hækkaði umfram 2,5% er rétt að leigan verði lækkuð þannig að enginn leigjandi í kerfinu fái hækkun á greiðslubyrði umfram 2,5% frá og með síðustu mánaðamótum.

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki

Mikilvægt er að styðja við fólk í viðkvæmri stöðu. Rétti tíminn til þess er núna áður holskeflan vegna Covid-19 skellur á okkur af af fullum þunga. Við verðum að grípa einstaklinga, fjölskyldur, barnafjölskyldur og hópa í viðkvæmri stöðu. Þar gegna sveitarlögin lykilhlutverki og Samfylkingin telur brýnt litið verði sérstaklega til þessara hópa í aðgerðum sveitarfélagsins og komið til móts við þá.

Árni Rúnar Þorvaldsson
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2