Náið og traust samstarf heimilis og skóla skiptir máli. Rannsóknir sýna að ávinningurinn er m.a. betri líðan barna í skólanum, aukin áhugi og sjálfstraust nemenda, betri ástundun og það eflir samtakamátt foreldra í uppeldis- og menntunarhlutverkinu. Það er m.a. af þessum ástæðum að samkvæmt lögum eiga foreldrafélög að vera starfandi í öllum grunnskólum, sem hafa það að markmiði að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimilis og skóla.
Foreldrafélög eru vettvangur fyrir foreldra til að hafa áhrif á skólasamfélagið með uppbyggjandi hætti. Bekkjafulltrúar hafa frumkvæði að og taka þátt í undirbúningi að sameiginlegum viðburðum í bekkjarstarfinu í samstarfi við kennara og foreldra sem stuðla að auknum tengslum foreldra, kennara og nemenda. Reynslan staðfestir að þar sem foreldra þekkjast gengur betur að leysa mál sem upp koma bæði innan bekkjarins og milli skólasystkina. Stjórnir foreldrafélaganna standa fyrir mikilvægu starfi, s.s. fræðslu og viðburðum og eiga einnig í nánu samstarfi við skólastjórnendur og starfsfólk félagsmiðstöðvanna. Þá eiga foreldrar fulltrúa í skólaráði enda mikilvægt að rödd foreldra heyrist sem víðast og þeir hafi aðkomu að ákvarðanatöku sem varðar velferð barnanna þeirra.
Foreldrafélög í Hafnarfirði hafa einnig sameiginlegan samstarfsvettvang sem er Foreldraráð Hafnarfjarðar. Hlutverk þess er að vera málsvari foreldra grunnskólabarna og vinna að sameiginlegum málefnum foreldrafélaganna í Hafnarfirði. Foreldraráðið hefur áheyrnarfulltrúa í fræðsluráði Hafnarfjarðar og í íþrótta- og tómstundanefnd og oft er óskað eftir tilnefningum í ýmsa starfshópa á vegum bæjarins sem fjalla um velferð barnanna.
Nýlega hélt Foreldraráðið fjölmennt málþing um forvarnir undir yfirskriftinni „Ekki barnið mitt“ í sal Flensborgarskóla. Í lok málþingsins skrifuðu málþingsgestir undir svohljóðandi ályktun: „Stjórn foreldraráðs Hafnarfjarðar leggur til að Hafnarfjarðarbær stórefli forvarnir í samvinnu við fagaðila, lögreglu og foreldra. Þá er hvatt til þess að starfsemi Götuvitans verði aukin verulega og úrræðum fyrir börn í vanda fjölgað“.
Í kjölfar málþingsins héldu fulltrúar Foreldraráðsins á fund með bæjarstjóra og afhentu honum ályktunina ásamt undirskriftunum með ósk um að málið fengi efnislega meðferð innan bæjarstjórnar og að forvarnarmál séu sett í forgang í samstarfi við foreldra. Nú hefur því verið lýst yfir að settur verði á fót starfshópur til að fjalla um leiðir í eflingu forvarna. Við í stjórn Foreldráðsins fögnum því og erum fús til að leggja því lið.
Samtakamáttur foreldra skiptir máli og hefur áhrif. Með traustu og góðu samstarfi getum við komið svo miklu til leiðar í stuðningi við skólastarfið og velferð barnanna okkar. Forsendan er virk þátttaka okkar allra í þágu barnanna og skólans.
Stefán Már Gunnlaugsson
formaður stjórnar Foreldraráðs Hafnarfjarðar.