Jafnaðarmenn telja skattkerfið mikilvægt til að jafna lífskjörin, standa vörð um og efla velferðarþjónustu sem allir vilja njóta og á að vera í stakk búin til að létta undir með þeim sem minnst mega sín. Þess vegna hafði Samfylkingin t.d. forystu um að taka upp þrepaskiptan tekjuskatt til að jafna frekar skattabyrðina. En útsvarið er flatur skattur og leggst á allan tekjustofninn. Ef svigrúm skapast til skattalækkana, þá hljótum við að horfa til þeirra sem búa við lægstu launin.
1.500 kr. á ári fyrir láglaunafólk – 10.000 kr. á ári fyrir hátekjufólk
Á bæjarstjórnarfundi í byrjun desember samþykkti meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins og óháðra að hafa enn um sinn 0,04 prósentustigum lægri útsvarsprósentu en heimilt er samkvæmt lögum. Fyrir hinn almenna launamann eru það 292.- kr. á mánuði og fyrir lægst launaða fólkið um 120.- kr. á mánuði eða tæpar 1.500 kr. ári. Fyrir hátekjufólk, sem hefur 2 milljónir á mánuði, eru þetta 800.- kr. á mánuði eða 9.600.- kr. á ári. Það myndi muna um þessa upphæð fyrir láglaunafólkið, en skiptir afar litlu máli fyrir hálaunafólkið. Hér blasir við hvernig misskiptingin grefur um sig í samfélaginu.
Styðjum við barnafjölskyldur
Samkvæmt fyrirspurn frá Samfylkingunni verður bæjarsjóður af 54 milljónum með þessari skattalækkun. Þá upphæð hefði mátt nýta til þess að lækka álögur hjá þeim sem eru í mestri þörf, t.d. horfa til öryrkja, eldri borgara og láglaunafjölskyldna með auknum afsláttum og öflugri þjónustu. Eða stuðla að átaki í uppbyggingu félagslegs húsnæðis, hlúa að barnafjölskyldum með því að taka næstu skref í átt að gjaldfrjálsum leik- eða grunnskóla eða ókeypis í strætó fyrir hafnfirsk börn. Barnafjölskyldur borga hlutfallslega hæstu skatta í þjóðfélaginu, en þurfa á sama tíma að standa undir fjárfrekum útgjöldum. Af nógu er að taka og mörg brýn verkefni sem bíða.
Jöfnum kjörin
54 milljónir bjarga ekki öllu, en geta verið mikilvæg skilaboð um áherslur og forgangsröðun í stjórn bæjarins. Hafnarfjörður hefur löngum verið til fyrirmyndar öðrum sveitarfélögum um að jafna kjör fólks, hlúa að öryrkjum, láglaunafólki og barnafjölskyldum. Jafnaðarmenn hafa lagt þar grunninn og þannig stuðlað að sátt og samstöðu í samfélaginu og trausti til bæjarins.
Stefán Már Gunnlaugsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.