fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanFrístundastyrkur loksins hækkaður 

Frístundastyrkur loksins hækkaður 

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Það er ánægjuefni að bæjarstjórn hafi loksins samþykkt tillögu Samfylkingarinnar um hækkun frístundastyrks barna og ungmenna. Í þessum mikilvæga málaflokki ber kjörnum fulltrúum að halda vöku sinni og leita með markvissum hætti allra leiða til þess að tryggja öllum börnum og ungmennum jafnan aðgang að því tómstundastarfi sem þau hafa áhuga á, óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Óhætt er þó að segja að meirihlutinn hafi gert sitt besta til þess að tefja málið.

Ævintýralegt ferðalag tillögunnar hefst

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir ári síðan lagði Samfylkingin til hækkun frístundastyrksins enda hafði Hafnarfjörður dregist aftur úr nágrannasveitarfélögunum. Bæjarstjórn vísaði tillögunni til fræðsluráðs. Þar var tillagan samþykkt samhljóða skömmu síðar. En þá tók málið óvænta stefnu og ævintýralegt ferðalag tillögunnar um nefndakerfi bæjarins hófst í boði meirihlutans. Meirihlutinn í bæjarstjórn ákvað nefnilega að hafna samþykkt fræðsluráðs og sendi tillöguna aftur í fræðsluráð.

Ári seinna lauk svo loks ferðalaginu þegar bæjarstjórn samþykkti tillögu Samfylkingarinnar á síðasta fundi sínum. Á ferðalaginu hafði tillagan m.a. viðkomu í fjölskylduráði sem endaði með því að fjölskylduráð gekk gegn eigin samþykkt um að frístundastyrkur eldri borgara ætti að vera í samræmi við frístundastyrk barna og ungmenna. Samfylkingin mun fylgja því eftir við gerð fjárhagsáætlunar að frístundastyrkur eldri borgara verði hækkaður.

Jafn aðgangur grundvallarmál

Jafn aðgangur barna og ungmenna að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum er grundvallarmál. Þátttaka í slíku starfi er ein besta forvörn sem völ er á og því mikilvægt að boðið sé upp á öflugt, fjölbreytt og metnaðarfullt íþrótta- og tómstundastarf. Þess vegna ákvað Samfylkingin árið 2002 að setja á fót frístundastyrk fyrir börn og ungmenni hjá Hafnarfjarðarbæ, fyrst sveitarfélaga á landinu. Mörg sveitarfélög hafa fylgt í kjölfarið og frístundastyrkurinn er orðinn hin almenna regla. Samfylkingin mun áfram setja þessi mál á oddinn og standa vörð um jafnt aðgengi allra að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Árni Rúnar Þorvaldsson,
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2