fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkFyrirbyggjum sjúkdóma með bættri lýðheilsu!

Fyrirbyggjum sjúkdóma með bættri lýðheilsu!

Una María Óskarsdóttir skrifar

Kæru kjósendur! Það er áhugavert að vera í stöðu til að bæta samfélagið og ég vill leggja mitt að mörkum til þess og skipa 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Ég ætla ásamt Miðflokknum að halda áfram með lýðheilsustefnuna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór af stað með 2014, þegar hann stofnaði ráðherranefnd um lýðheilsu. Eftir því var tekið m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, enda geta áhrif stjórnvalda á heilsu og líðan almennings verið mikil og þeim ber að vinna að félagslegu réttlæti, heilsu og hamingju fólks. Ein af aðgerðum lýðheilsustefnunnar er að efla jákvæða leiðandi uppeldishætti foreldra og forráðamanna barna.

Eitt mikilvægasta starf okkar í lífinu er nefnilega uppeldi barnanna okkar. Það starf getur verið snúið vegna þess hve börnin eru ólík og þurfa þá mismunandi leiðsögn. Það eru ekki til óþekk börn, en hegðun þeirra segir til um hvernig þeim líður. Rannsóknir sýna að leiðandi uppeldishættir foreldra og forráðamanna barna og ungmenna eru heppilegasta uppeldisaðferðin. Sú aðferð styrkir sjálfsmynd, eflir sjálfstæði og kennir börnum að setja sig í spor annarra.

Það á að vera eðlilegt að foreldrar fari á námskeið til þess að kynna sér heppilegar uppeldisaðferðir.  Þess vegna ætlar Miðflokkurinn að gefa öllum foreldrum ungra barna kost á að sækja námskeið til að auka færni sína við uppeldi  barna. Leiðandi uppeldisaðferðir foreldra efla jákvæða sjálfsmynd barna og ungmenna, styrkja geðheilbrigði þeirra og geta haft áhrif á val þeirra um heilbrigt líf, hreyfingu, mataræði og slökun. Þannig verður spornað við lífsstílstengdum sjúkdómum og unnið gegn ofbeldi í samfélaginu.

Það að hafa eitthvað hollt og gott fyrir stafni þar sem börn frá hrós og hvatningu getur skipt sköpum um hvaða leið börn og unglingar velja í lífi sínu. Miðflokkurinn ætlar að efla íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna í samstarfi við íþróttahreyfinguna og frjáls félagasamtök því íþróttir og tómstundir skipta höfuðmáli í uppeldi.

Það skiptir einnig miklu að vinna gegn því að börn og unglingar þrói með sér þunglyndi og kvíða. Miðflokkurinn ætlar að efla skimanir fyrir þunglyndi og kvíða hjá öllum grunnskólabörnum, en hér á landi hafa slíkar skimanir farið fram í einhverjum grunnskólum. Sérstök próf hafa verið lögð fyrir og ef niðurstaða prófsins sýnir tilhneigingu til þunglyndis eða kvíða hefur ungmennunum verið boðið að sækja námskeið til að vinna gegn þunglyndinu og kvíðanum.

Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem ætlar að leggja höfuðáherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma í stað þess að stöðugt þurfi að bregðast við þeim. Ef þú ert sammála okkur, merktu þá við XM á kjörseðilinn þinn laugardaginn 28. október.

Una María Óskarsdóttir
uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2