Píratar í Hafnarfirði leggja áherslu á að Hafnarfjörður verði leiðandi um gagnsæi og upplýsta ákvarðanatöku. Upplýst ákvarðanataka felur í sér að ákvarðanir séu teknar út frá nýjustu og bestu þekkingu hvers tíma. Til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir þurfa upplýsingar að vera aðgengilegar. Ekki er aðeins mikilvægt að allar fundargerðir séu birtar heldur verða þær að vera skiljanlegar og á mannamáli. Píratar í Hafnarfirði vilja tryggja að allar upplýsingar um útgjöld bæjarins, dótturfyrirtækja hans og byggðasamlaga séu opin og aðgengileg. Hafnarfjörður býr yfir miklum mannauði og Píratar í Hafnarfirði vilja treysta bæjarbúum til að fara yfir opinber gögn og finna leiðir til úrbóta. Í því felst ekki aðeins hagræðing heldur ýtir það undir og styrkir lýðræðislegan vettvang og samráð við bæjarbúa.
Samhliða auknu gagnsæi og upplýsingaflæði til bæjarbúa leggja Píratar í Hafnarfirði til að stofnað verði embætti umboðsmanns bæjarbúa. Aðgengi að umboðsmanni bæjarbúa eflir borgararéttindi og tryggir bæjarbúum ráðgjöf og leið til að leita úrlausna á málum sínum sem upplýsir meðal annars um endurupptöku mála og mögulegar kæruleiðir. Píratar í Hafnarfirði leggja áherslu á að umboðsmaður bæjarbúa geti staðið vörð um réttindi okkar og hafi þess vegna heimild til að taka upp og rannsaka mál af eigin frumkvæði.
Lykiláhersla Píratar í Hafnarfirði er á aukið lýðræði, gagnsæi og eflingu borgararéttinda. Þess vegna bjóðum við Hafnfirðingum á opinn fund um Betri Hafnarfjörð í Gaflaraleikhúsinu miðvikudaginn 27. apríl kl 20.
Hildur Björg Vilhjálmsdóttir,
frambjóðandi í 2. sæti fyrir Pírata í Hafnarfirði
Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir,
frambjóðandi í 4. sæti fyrir Pírata í Hafnarfirði