Í kjölfar íbúafjölgunar, aukins ferðamannastraums og hækkandi verðlags ár frá ári, hafa margar fjölskyldur lent í sjálfheldu vinnu og skulda. Afleiðingin er minni frítími til að sinna hvert öðru svo vel fari. Niðurstaðan er einnig mikill hraði og spenna sem eru skaðleg fyrir sálarlífið og það á meðan þjónusta við geðheilbrigði þjóðarinnar hefur áratugum saman setið á hakanum. Ótal skýrslur hafa verið gefnar út á liðnum árum og hver áætlunin sett fram á eftir annarri – en minna er um að fjármagn fylgi stóru orðunum.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sinnir 1. og 2. stigs geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslustöðva og í Geðheilsuteymi Suður sem þjónustar Hafnarfjörð, en 3. stigs þjónusta, sérhæfð geðmeðferð, er veitt á Geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúss. En stigin þrjú starfa ekki í tómarúmi, heldur er samstarf við félagsþjónustu og aðra þjónustu í nærumhverfi íbúanna mikilvæg.
Hafnarfjörður hefur alla burði til að skipa sér í forystu sveitarfélaga í að veita íbúum fyrsta flokks geðheilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að þeir sem sinna störfum sem falla undir Hafnarfjarðarbæ, og þjónusta íbúa Hafnarfjarðar með geðrænar áskoranir, hafi rétta þjálfun og aðgang að fjármagni til að leysa sín verkefni vel af hendi. Einnig er mikilvægt að búa til gott starfsumhverfi fyrir smáfyrirtæki í einkarekstri, á borð við Lífsgæðasetur gamla St. Jósepsspítalans.
Aukin meðvitund og þjálfun þeirra sem starfa með börnum og unglingum um áhrif áfalla í uppvexti á heilsu síðar á ævinni er nokkuð sem Píratar vilja stuðla að. Í rannsóknum hefur komið fram að bein tengsl eru milli þungbærrar reynslu í æsku, s.s. að búa við andlega eða líkamlega vanrækslu, að eiga foreldri með geðrænan vanda eða að verða fyrir einelti, og alvarlegs heilsufarsvanda á fullorðinsárum. Gögnin eru til, tólin eru til – nú þurfum við að framkvæma og þjálfa okkar fólk í áfallamiðaðri nálgun.
Píratar vilja auka aðgengi íbúa í Hafnarfirði að geðheilbrigðisþjónustu og geðbætandi forvörnum í nærumhverfi.
Haraldur R. Ingvason og Ragnheiður H. Eiríksdóttir Bjarman,
frambjóðendur í 1. og 6. sæti fyrir Pírata í Hafnarfirði