Leikskólaaldurinn er það tímabil í lífi hvers einstaklings þar sem mestur þroski á sér stað. Það faglega starf sem á sér stað í leikskólum er því afar mikilvægt og er þar lagður grunnur að menntun barna og byggja önnur skólastig ofan á þann grunn. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og vinnur eftir aðalnámskrá við skipulagningu á eigin starfi og við áætlanagerð líkt og í grunnskólum.
Framsókn í Hafnarfirði vill hefja vinnu við að gera leikskóla sveitarfélagsins gjaldfrjálsa í skrefum. Leið sem yrði tekin í skrefum í samvinnu við leikskólana í Hafnarfirði. Þar erum við að tala um að faglegt skólastarf, í gegnum leik og sköpun, yrði skipulagt með sambærilegum hætti og í grunnskólunum sem eru gjaldfrjálsir. Að því loknu tæki við skipulagt frístundastarf sem yrði sá hluti dagsins sem greitt yrði fyrir. Með þessari aðgerð yrði stigið skref í átt að því að leikskólinn yrði óumdeilanlega fyrsta skólastigið.
Við leggjum mikla áherslu á að tryggja að hagsmunir barna séu ávallt í fyrsta sæti þegar leikskólastarf er skipulagt. Það verður forgangsmál að halda áfram vinnu við greiningu á rýmum, barngildum og starfsaðstæðum í leikskólum Hafnarfjarðar í samstarfi við starfsfólk þeirra.
Það þarf þorp til að ala upp barn og því er mikilvægt að tryggja að gott samráð sé við starfsfólk leikskólanna og foreldra.
Í Hafnarfirði eru góðir og öflugir leikskólar. Við getum eflt þá enn frekar og styrkt þetta mikilvæga fyrsta skólastig og gert það aðgengilegt öllum óháð efnahag. Það yrði framsókn allra í Hafnarfirði.
Margrét Vala Marteinsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði
Bjarney Grendal Jóhannesdóttir, skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði.