Við hjá Carbfix og Ómar Smári Ármannsson íbúi í Hafnarfirði höfum verið ötul í skrifum hér í Fjarðarfréttum yfir hátíðarnar um Coda Terminal verkefnið í Straumsvík og umræðan heldur áfram á nýju ári. Sem er vel.
Carbfix hefur átt gott samtal við íbúa í Hafnarfirði um verkefnið allt frá upphafi enda viljum við forðast skautun í umræðunni og undirstrika mikilvægi þess að málin séu rædd á heiðarlegan og málefnalegan hátt.
Við höfum áður sagt og er endurtekið hér að við höfum meðtekið sterkar ábendingar um staðsetningu og umfang verkefnisins sem við höfum sannarlega tekið til skoðunar og nýtt til þess að bæta verkefnið.
Öllum þar til bærum stofnunum og öllum sem höfðu áhuga á var gefinn kostur á að veita umsögn um umhverfismatsskýrslu Coda Terminal til Skipulagsstofnunar. Álit Skipulagsstofnunar verður vonandi birt á næstu vikum ásamt svörum við ábendingum og verður án nokkurs vafa gott innlegg í umræðuna.
Valið er hjá Hafnfirðingum
Það er mikilvægt að við berum traust til okkar helstu sérfræðinga og stofnana á hverju sviði þegar mat er lagt á framkvæmdir á Íslandi, hvort sem það er orkuvinnsla, kvikmyndaver, iðnaður eða niðurdæling á koldíoxíði. Allt hefur sína kosti og galla.
Verði skilyrði bæjarstjórnar Hafnarfjarðar uppfyllt fá íbúar í Hafnarfirði að kjósa um verkefnið. Það er því mikilvægt að hafa í huga að allt í kringum verkefnið er í réttum farvegi og eftir þeim leikreglum sem við sem samfélag höfum sett okkur varðandi framkvæmdir sem þessar.
Getum fangað og bundið losun frá álverinu í Straumsvík
Ómar Smári hefur verið nokkuð gagnrýninn á starfsemi okkar og í umræðunni höfum við lagt höfuðáherslu á vísindin í kringum aðferð Carbfix. Það teljum við mikilvægt enda er svo sannarlega verk að vinna þegar kemur að loftslagsmálum.
Carbfix tæknin er mjög áhrifamikil og sönnuð leið til þess að takast á við loftslagsvandann. Hún er ein af mörgum lausnum sem við þurfum að beita. Til að mynda getum við fangað og bundið losun frá álverinu í Straumsvík og annarri stóriðju á Íslandi með okkar tækni. Við höfum nú þegar hafið undirbúning að verkefni hjá Elkem á Grundartanga ásamt Þróunarfélagi Grundartanga sem gengur út á að fanga og binda losun frá kísilverinu og við vonumst til að hefja slíkt samstarf með Rio Tinto í Straumsvík sem allra fyrst.
Afgreiðum neikvæðnina
Það er mikilvægt að segja skýrt að margítrekaðar fullyrðingar Ómars Smára um að Carbfix tæknin eigi sér enga stoð í raunveruleikanum eru rangar. Sannanir Carbfix fyrir virkni aðferðarinnar er grjóthörð og margsönnuð líkt og bent hefur verið ítrekað á. Hún er það grjóthörð að hún er í raun raunverulegt grjót og árangurinn sjáum við með berum augum þegar tekin eru sýni með borkjörnum.
Mat Ómars Smára á okkar fremsta vísindafólki og prófessorum í jarðvísindum við Háskóla Íslands er eitthvað sem hann verður að eiga við sjálfan sig.
Meðal annars segir hann í nýjustu grein sinni: „Hin meinta aðferðarfræði Carbfix felst í niðurdælingu á CO₂ vegna Orca verkefnisins á Hellisheiði. Verkefnið sem slíkt var nánast algert „fíeskó“ þegar ljóst var að í niðurdælingunni fólust nánast stöðugir jarðskjálftar með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa Hveragerðis um langt skeið”.
Í stuttu máli:
Orca verkefnið sem hófst árið 2021 felur í sér föngun og niðurdælingu á koldíoxíði og þar hefur aldrei orðið jarðskjálfti af völdum niðurdælingar Carbfix frekar en annarsstaðar.
Líklega er hann að tala um skjálfta sem urðu við Hellisheiðarvirkjunar 2011 þegar nýtt niðurdælingarsvæði Hellisheiðarvirkjunar var tekið í notkun. Þá var verið að hefja niðurdælingu á miklu magni af kældu jarðhitavatni á nýjum stað í háhitakerfið á svæðinu og við það losnuðu gikkskjálftar á þessu virka jarðskjálftasvæði. Í framhaldinu var niðurdælingu jarðhitavatns frá virkjuninni betrumbætt og hefur gengið vel allar götur síðan.
Þetta hefur ekkert með Carbfix að gera og í Coda Terminal er gengið út frá mun grynnri niðurdælingu heldur en er gert í háhitavinnslu. Það hafa aldrei verið framkallaðir skjálftar á dýpinu sem Coda Terminal hyggst vinna á.
Það hefur því ekki átt sér stað neitt fíaskó í tengslum við Carbfix líkt og Ómar Smári heldur fram og það er mjög mikilvægt að þessu sé ekki haldið fram. Þvert á móti hefur árangur Carbfix vakið athygli á heimsvísu.
Tölum um meira jákvætt
Carbfix hefur verið með starfsemi í sveitarfélaginu Ölfusi frá árinu 2012 og er hluti af Jarðhitagarði Orku náttúrunnar með öllum þeim tækifærum sem þar felast. Tilvist Carbfix á svæðinu hefur m.a. laðað að sér svissneska fyrirtækið Climeworks sem fangar koldíoxíð úr andrúmsloftinu og því er dælt niður með Carbfix-aðferðinni.
Fjárfesting Climeworks í grænni nýsköpun í Ölfusi er yfir 30 milljarðar króna í auk þess sem ný störf hafa skapast í Jarðhitagarði ON. Þar má finna íslensku nýsköpunarfyrirtækin VAXA Technologies, geoSilica og Örverurannsóknir Háskóla Íslands. Öll þessi fyrirtæki hafa það að markmiði að stuðla að skynsamlegri notkun auðlinda, skapa hringrásarhagkerfi með fjölnýtingu á heitu vatni til dæmis og leggja sitt af mörkum í átt að sjálfbærri framtíð.
Carbfix vinnur nú að verkefnum í yfir 20 löndum víðsvegar um heim þar sem tækni okkar er nýtt með svipuðum hætti og áætlanir gera ráð fyrir í Straumsvík og á iðnaðarsvæðinu í Hafnarfirði. Það mun skapa þjóðartekjur og tækifærin eru augljós þegar kemur að menntun og spennandi störfum fyrir ungt fólk í loftslagsverkefnum. Ísland er í forystu um þessar mundir þegar kemur að endurnýjanlegri orku og að koma í veg fyrir losun frá iðnaði sem getur verið sproti að nýrri útflutningsgrein.
Rask á iðnaðarsvæðinu í Straumsvík
Það er vandasamt að koma fyrir verkefni svo það hafi sem allra minnst áhrif á umhverfi sitt. Í umhverfismatsskýrslu Coda Terminal verkefnisins er tekið tilli til fornminja, skipulags, mannvirkja, háspennulína, raskaðs/óraskaðs lands eins og er sýnt á mynd hér neðar. Það er einmitt samtalið sem þarf, og er, að eiga sér stað um hvort eigi að brjóta nýtt óraskað land undir verkefni eða koma fyrir á þegar röskuðu svæði eins og hægt er.
Við lagningu borteiga, slóða og lagna neðanjarðar er reynt að hafa sem minnst áhrif á umhverfið. Það verður eðlilega alltaf eitthvað rask, eins og af öllum verkefnum, en mögulega getur verkefnið bætt aðgengi að umhverfinu og merkilegum minjum á svæðinu.
Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir hvernig útfærslan var í umhverfismatinu.
Með virðingu og vinsemd og ósk um gleðilegt nýtt ár.
Ólafur Elínarson f.h. starfsfólks Carbfix.
Smella má á mynd til að stækka.