Í næstum tvo áratugi hefur svokölluð SMT stefna verið við lýði í skólum Hafnarfjarðar. Hún er byggð á kenningum atferlismótunar þar sem hrós í formi miða er veitt fyrir æskilega hegðun og umbun því gerð að útgangspunkti í hegðun barna.
Öll getum við verið sammála um mátt hróss og styrkingar jákvæðrar hegðunar en hins vegar má setja stórt spurningarmerki við að notast við atferlismótandi kerfi sem byggt er á hugmyndafræði þar sem útgangspunkturinn er að börn kunni ekki að haga sér. Síðan má setja spurningarmerki við svo mikla miðstýringu á heilu sveitarfélagi sem gerir kennurum og skólastarfi sjálfu erfitt fyrir að vera skapandi og sjálfstætt og hverjum skóla fyrir sig að marka sér eigin stefnu.
Það er klárlega kominn tími til að afnema SMT stefnuna í Hafnarfirði og taka upp annars konar kerfi sem sátt ríkir um meðal kennara, barna og foreldra.
Á skólaþingi sveitarfélaganna sem fór fram fyrr í vetur kom skýrt fram hvar pottur er brotinn hjá sveitafélögum í geðheilbrigðismálum barna og aðgangi þeirra að sérfræðingum. Það vantar sárlega fræðslu til nemenda um geðheilbrigði og stórauka þarf aðgengi kennara og nemenda að sérfræðingum innan skólans og nú enn frekar eftir þau áhrif sem Covid hefur haft á mörg börn.
Við Vinstri græn í Hafnarfirði viljum gera Hafnarfjörð að sveitarfélagi sem tekur forystu í mennta- og geðheilbrigðismálum barna með því að innleiða forvarnarstarf í skólakerfið og tryggja sálfræðinga við hvern skóla til að sinna geðheilbrigði nemenda og styðja betur við starfsfólk í sínum störfum. Við viljum aukna áherslu á skapandi skólastarf sem og innleiða núvitund í skólastarfið þar sem það hefur sýnt sig bæði hérlendis og erlendis að það stórbætir líðan nemenda.
Anna Sigríður Sigurðardóttir,
skipar 3. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Hafnarfirði