Stundum getur verið erfitt fyrir vegfarendur að greina af yfirborðinu einu saman hvort gatan framundan er ætluð eingöngu fyrir gangandi, hjólandi eða ríðandi umferð, nema hvorutveggja sé. Þannig eru sumir stígar t.d. meintir fyrir bæði gangandi og hjólandi, en aðrir fyrir gangandi og ríðandi. Stundum eru stígarnir merktir með boðmerkjum við upphaf og enda, en ekkert þar á millum. Þannig geta vegfarendur, sem koma inn á slíka stíga einhvers staðar þar á milli, engan veginn áttað sig á öðrum tilgangi þeirra en að þeir séu fyrir hvern sem er. Á stundum getur vegna þessa skapast alls kyns óþarfa misskilningur.
Ég var eitt sinn að leita að merki í Ratleik Hafnarfjarðar er átti að vera við Gráhellu í Gráhelluhrauni; hjólaði austur hina gömlu þjóðleið Selvogsgötu frá Flóttamannavegi, framhjá Lækjarbotnum og beygði síðan suður „Frakkastíg“, línuveg sunnan Setbergshlíðar. Þvert á stíginn þann lá hentugur malarstígur í hrauninu til austurs. Eftir að hafa barið merkið augum var haldið hjólandi til baka vestur malarstíginn, eða þangað til maður á hesti birtist framundan. Ég nam staðar, færði mig út á kant til að gæta fullrar tillitssemi og beið rólegur. Reiðmaðurinn, karlmaður á áttræðisaldri, ég kinkaði kolli og maðurinn virtist ætla að halda sína leið, en fann þess í stað allt einu hjá sér þörf til að staðnæmast og hrópa: „Hvern andskotann ert þú að gera hér á reiðstígnum?“
Ég horfði á manninn og svaraði eftir bestu getu: „Nú, er þetta ekki reiðstígur?2
„Hvað áttu við?“ hrópaði hann enn hærra.
Ég benti á reiðhjólið og svaraði: „Ég er á reiðhjóli“.
Maðurinn var nú farinn að roðna verulega í andliti af reiði og skilningsleysi, sem er jú sérstaklega hættuleg blanda fyrir hjartveika, svo ég bætti við til skýringa: „Ég kom inn á stíginn hérna rétt neðar og þar var ekkert sem gaf til kynna að hann væri eingöngu fyrir hestafólk. Og auk þess er engin ástæða fyrir þig að bregðast við með þessum hætti. Þú hefðir bara geta borið þig að eins og maður og þá hefði allur þessi æsingur verið óþarfur. Ég sé enga ástæðu til að eiga orðastað við þig lengur, en njóttu dagsins,“ sté á bak reiðskjótanum og hjólaði mína leið áfram til vesturs. Eftir sat reiðmaðurinn bölvandi, en hesturinn, sem virtist öllu skynsamari, tók hegðun hans með stóískri ró.
Lögreglusamþykkt
Í Lögreglusamþykkt fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, dags. 22. des. 2010 er í VII. kafla 31, gr. fjallað „um búfjárhald og hundahald“:
„Umferð reiðhesta er bönnuð innan þéttbýlismarka annars staðar en á merktum reiðstígum nema með sérstöku leyfi eða samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar“.
Ekkert er um akstur reiðhjóla eða reglur fyrir gangandi vegfarendur í samþykktinni.
Umferðarlög
Í Umferðarlögum nr. 77, 25. júní 2019 eru m.a. í 3. gr. eftirfarandi skilgreiningar:
- Göngustígur: Stígur sem aðallega er ætlaður umferð gangandi vegfarenda og er merktur þannig.
- Reiðhjól: a. Ökutæki sem er knúið áfram með stig- eða sveifarbúnaði.
- Reiðstígur: Vegur eða stígur skipulagður af sveitarfélagi sem ætlaður er sérstaklega fyrir umferð reiðmanna á hestum og er merktur þannig.
- Vegfarandi: Hver sem fer um veg eða er staddur á vegi eða í ökutæki á vegi.
- Þéttbýli: Svæði sem fellur undir skilgreiningu þéttbýlis samkvæmt skipulagslögum og afmarkað er með sérstökum merkjum sem tákna þéttbýli.
Ekkert er um umferð hestafólks í umferðarlögum. Flestir reiðstígar eru innan þéttbýlis, a.m.k. skv. staðsetningu merkja sveitarfélagsins og ættu því að lúta reglum Lögreglusamþykktarinnar.
Í Reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995 segir m.a.:
„Bannmerkjum er ætlað að banna eða mæla fyrir um umferð“.
„Boðmerki má nota þar sem mælt er fyrir um ákveðna umferð“.
Aðeins boðmerki
Við upphaf og enda reiðleiða í umdæmi Hafnarfjarðar eru einungis boðmerki. Engin slík merki er aðfinna á og við leiðirnar sjálfar, að undanskildum nýmalbikuðum stíg frá Öldum að Gjánum vestan Kaldárssels, sama hversu langar þær eru.
Við þessar leiðir eru engin bannmerki. Ekki heldur eru slíkar merkingar við leiðir eða stíga sem ætlaðir eru sérstaklega hjólandi og/eða gangandi umferð.
Af framangreindu má sjá að lítil ástæða er til að æsa sig yfir litlu – a.m.k. uns úr verður bætt. Auk þess kostar ekkert að sýna öðru fólki sjálfsagða kurteisi.
Ómar Smári Ármannsson.