Húsfyllir var á kynningarfundi um heilsueflingu eldri borgara í Hafnarfirði í síðustu viku þar sem kynnt var dagskrá byggð á samstarfssamningi um heilsueflingu allt að 160 íbúa Hafnarfjarðarbæjar 65 ára og eldri sem var undirritaður af bæjarstjóra Hafnarfjarðar og Janusi Guðlaugssyni þann 4. janúar sl. Með samningnum sem er liður í áherslu Hafnarfjarðarbæjar um heilsusamlegt samfélag er verið að hvetja eldri borgara til hreyfingar og hollra lífshátta sem leiðir til betri lífsgæða.
Íþrótta- og tómstundastyrkir
Á þessu ári hækkuðu íþrótta- og tómstundastyrkir til 67 ára og eldri úr kr. 1.700 í kr. 4.000 á mánuði og verða því alls kr. 48.000 á ári. Með þessu var ákveðið að styrkirnir fylgi framvegis þróun frístundastyrkja fyrir börn og ungmenni og er til þess fallinn að hvetja til hreyfingar, bæta líðan og lífsgæði eldri borgara. Á heimasíðu Landssambands eldri borgara kemur fram að samkvæmt lauslegri athugun er ekki sambærilegur stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf eldri borgara í öðrum sveitarfélögum. Auk þessa er frítt í sund fyrir 67 ára og eldri.
Og svo margt fleira
Mikilvægt skref í að eldri borgurum og öryrkjum sé gert kleift að búa í eigin húsnæði var stigið með samþykkt í nýrri fjárhagsáætlun um stóraukinn tekjutengdan aflsátt á fasteignaskatti. Tekjuviðmið einstaklinga sem fá 100% afslátt af fasteignaskatti hafa hækkað á kjörtímabilinu úr kr. 2.600.000 í kr. 5.013.000, tekjuviðmið hjóna/fólks í skráðri sambúð hafa hækkað á sama tíma úr kr. 3.630.000 í kr. 6.405.500, nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar. Hafnarfjarðar bær rekur þrjár félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara, þær eru Hraunsel við Flatahraun, þar fer fram öflugt starf Félags eldri borgara í Hafnarfirði, á Hjallabraut 33 og Sólvangsvegi 1 er fjölbreytt þjónusta og tómstundir, þar er einnig hádegismatur í boði gegn vægu gjaldi. Félagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar sér um margs konar þjónustu við eldri borgara sem vert er að kynna sér. Það er af nógu jákvæðu að taka í málefnum eldri borgara í Hafnarfirði. Hvet ég alla sem komnir eru á efri ár að nýta sér þá þjónustu og afþreyingu sem er í boði.
Ó. Ingi Tómasson bæjarfulltrúi (D).