fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífHamarinn veturinn 2020-2021

Hamarinn veturinn 2020-2021

Margrét Gauja Magnúsdóttir skrifar

Þá er vetrinum 2020- 2021 að ljúka og sumir myndu segja  sem betur fer, ekki við í Hamrinum samt því hér hefur allt gengið eins og í sögu og starfið blómstrað. Við í Hamrinum ákváðum strax í haust að auka opnunartíma til muna og vera með opið frá 9-23 alla virka daga. Þegar samkomubönnin voru sem mest höfðum við einnig opið um helgar. Einhverjum finnst það eflaust skrýtið, á meðan aðrir lokuðu þá jukum við opnunartímann, en þar liggur styrkleiki ungmennahúsa og meginhlutverk, að vera skjól fyrir ungt fólk. Stjórn Hamarsins ákvað að sá hópur sem ætti að vera í forgangi í vetur væru námsmenn en margir höfðu ekki tækifæri á að vera heima hjá sér í fjarnámi. Það virkaði vel og hefur Hamarinn verið vel nýttur til lærdóms í vetur, sóttvarnir eru í fyrirrúmi og höfum við alltaf gengið skrefinu lengra í þeim efnum en reglur sögðu til um. Einnig þarf að muna að í Flensborg eru ekki eingöngu hafnfirskir nemendur og gátu þeir nemendur leitað til Hamarsins í eyðum og matarhléum.

Stjórn Hamarsins skipa 13 magnaðir einstaklingar á aldrinum 16-23 ára, nemendur í Flensborg, Tækniskólanum og Háskóla Íslands og ungt fólk á vinnumarkaðnum. Án þeirra væri engin Hamar og hafa þau lagt mikið á sig til að styðja við starfið í vetur. Við erum þeim ótrúlega þakklát.

Vegna ástandsins hafa ekki verið margir viðburðir í vetur en Hamarinn stóð fyrir Streymi tónleikaröð þar sem streymt var þrjú föstudagskvöld ungu hafnfirsku tónlistarfólki. Verkefnið fékk styrk frá ferða- og menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að standa undir kostnaði og slógu tónleikarnir í gegn. Annar styrkur fékkst frá sömu nefnd í vor og staðið var fyrir myndlistarsýningu í Hamrinum núna í maí þar sem myndlistarfólkið er ungt fólk á flótta, með búsetu í Hafnarfirði og ungir Hafnfirðingar af erlendu bergi brotnu. Tókst sýningin einstaklega vel og var vel sótt.

Rauði krossinn Youth Club er í samstarfi við Hamarinn og sóttum við saman um styrk í Æskulýðssjóð þar sem ungt fólk á flótta og íslensk ungmenni fá tækifæri að fara í 6 dagsferðir utan höfuðborgarsvæðisins og kynnast íslenskri náttúru, sögu og menningu. Styrkurinn fékkst og lagt var afstað í samstarfi við Tröllaferðir og er nú ein ferð eftir. Búið er að fara á Snæfellsnes, í hvalaskoðun, á hestbak, á Sólheimajökul, Gullhring og fleira og hefur verkefnið tekist einstaklega vel. Íslensk náttúra og kraftur hennar er valdeflandi og hefur jákvæð áhrif á andlega líðan okkar allra.

Í janúar var skrifað undir samstarfssamning við Bergið headspace og hefur Eva Rós Ólafsdóttir ráðgjafi á þeirra vegum verið í Hamrinum alla mánudaga og boðið uppá ráðgjöf. Þessari þjónustu hefur verið vel tekið og hafa verið veitt 38 viðtöl í Hamrinum frá því í byrjun febrúar. Hægt er að bóka viðtal á bergid.is og eingöngu þarf að taka fram að viðtalið fari fram í Hamrinum. Einnig er hægt að fá viðtal við ráðgjafa frá Samtökunum ´78 í Hamrinum og er sami háttur hafður á. Einnig erum við svo lánsöm að vera með samninga við tvo sálfræðinga og hafa þau verið að þjónusta ungt fólk frítt hér í Hamrinum og á stofu hér í Hafnarfirði. Einnig er hægt að hafa samband við Möggu Gauju á netfangið mgm@hafnarfjordur.is, í síma 6645551 eða með DM á Facebook og Instagram síðum Hamarsins. Öll ráðgjöf og þjónusta sem hér er veitt er unnin í anda Bergsins headspace um lágþröskuldaþjónustu og við höfum tækifæri á að bregðast hratt við aðstæðum. Ungt fólk í dag er svo magnað, það mætir í Hamarinn og sækir ráðgjöf og sest svo í sófann og byrjar að spjalla. Að leita til ráðgjafa eða sálfræðings er jafn sjálfsagt og að fara til tannlæknis og það andrúmsloft erum höfum við náð að skapa hér í Hamrinum, unga fólkinu hér að þakka.

Úti-Hamarinn er nýtt verkefni þar sem farið er í göngur alla fimmtudaga klukkan fimm og markmiðið er að ganga Fimmvörðuhálsinn 24. júní og gista í Þórsmörk eina nótt. Ef verkefnið gengur vel verður Úti-Hamarinn einnig starfrækt næsta vetur. Búið er að ganga á Stórhöfða, Búrfellsgjá, Úlfarsfell, Helgafell og í Reykjadalinn. Það er gaman að ganga og spjalla og eru allir velkomnir í Úti-Hamarinn, byrjendur sem lengra komnir.

Handavinnu-Hamarinn er verkefni sem unnið er í samstarfi við Garnabúð-Eddu, Söndru Karlsdóttir og Unga prjónara. Styrkur fékkst til að halda prjónakvöld í Hamrinum frá Erasmus+ og var viðburðinn hluti af Evrópsku ungmennaviku. Ákveðið hefur verið að bjóða uppá Handavinnu-Hamar næsta vetur, öll fimmtudagskvöld, þar sem verður prjónað, heklað, krossaumað, fengnir kennarar, kynningar og fyrirlesara og eru allir velkomnir, byrjendur sem lengra komnir.

Hinsegin Hamarinn mun ryðja sér til rúms næsta vetur og búið er að halda vel sóttan fund um hvernig best er að standa að starfi fyrir ungt fólk sem skilgreinir sig hinsegin. Búið er að setja á laggirnar hóp á Facebook sem mun standa að undirbúningi viðburða næsta vetur og koma með ráð, ábendingar og óskir. Ef einhver sem þetta les og skilgreinir sig hinsegin vill taka þátt þá endilega hafa samband við Möggu Gauju og hún bætir þér í hópinn. Starfið er unnið í samráði og samstarfi við Samtökin ´78.

Spunaspil hefur verið fastur liður á fimmtudögum í Hamrinum. Þá mæta hér spunaspilarar og spila Dungeons and dragons og fleiri „role play“ spil. Haldin hefur verið „spunaspilarasólahringur“ og er þessi frábæri hópur orðin rótgróinn hluti af Hamrinum.

Nýbreytni var gerð í Skapandi sumarstörfum í Hafnarfirði í ár og ramminn víkkaður til muna. Fólk á aldrinum 18-25 ára getur sótt um, sem einstaklingar eða hópur, að fá starf í Skapandi sumarstarfa byggt á verkefnum. Umsækjendur lögðu fram metnaðarfullar verkefnalýsingar með von um að fá starf hjá sveitarfélaginu við að framkvæma hugmyndir sínar. Átta verkefni voru samþykkt og samtals 15 einstaklinga ráðnir. Verkefnin eru allt frá því að skrifa leikrit, kynna kórverk fyrir bæjarbúum, framkvæma gjörninga, framleiða kynningarmyndbönd um Hafnarfjörð, búa til stuttmynd o.fl. Með þessu er verið að gefa ungu listafólki tækifæri til að vinna að sinni listsköpun, safna í möppu til að sækja um nám, fá þjálfun í að sækja um styrki og vinnu við sína sköpun og leyfa okkur bæjarbúum að njóta afrakstursins. Verkefnið er hýst í Hamrinum og í ágúst verður uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa í Hamrinum og eru allir bæjarbúar velkomnir.

Í desember hlotnaðist Hamrinum Grænfánaviðurkenning frá Landvernd, fyrst ungmennahúsa á Íslandi og er hér mikið lagt upp úr flokkun og umhverfisvernd. Einnig hlaut Hamarinn hvatningarverðlaun Samfés fyrir verkefnið „Liggur þér eitthvað á hjarta?“ sem er samstarf Hamarsins við Bergið headspace, Samtökin ´78 og sálfræðinga. Við erum virkilega stolt af þessum viðurkenningum og ætlum að leggja okkur fram við að standa undir þeim áfram.

Á sumrin breytist starfsemi Hamarsins en þá tekur Vinnuskóli Hafnarfjarðar yfir húsnæðið á daginn. Þó er opið öll mánudagskvöld og fimmtudagskvöld í júní, lokað er í júlí en Hamarinn opnar aftur á daginn eftir verslunarmannahelgi og opnunartíminn fer aftur í 9-23 frá og með 16. ágúst.

Við viljum þakka öllum þeim sem hafa nýtt sér Hamarinn í vetur og glætt hann lífi. Það er fallegur andií húsinu þar sem allir fá pláss og eru velkomnir. Við hlökkum til næsta veturs og vonumst til að sjá ykkur sem flest, þið frábæra unga fólk Hafnarfjarðar og víðar.

Margrét Gauja Magnúsdóttir,
forstöðukona Hamarsins.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2