fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirPólitíkHamfarakapítalismi frekar en samstarf bæjarstjórnar

Hamfarakapítalismi frekar en samstarf bæjarstjórnar

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins eru alvarlegar. Ríkisstjórnin segir að hún ætli að vinna gegn áhrifum kreppunnar með efnahagslegum örvunaraðgerðum og að ríkissjóður verði rekinn með halla næstu árin. Áætlað er að tekjur sveitarfélaga muni dragast saman um 50 milljarða á þessu ári og því næsta en á sama tíma eykst þjónustuþörfin. Því miður eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að styðja sveitarfélögin fálmkenndar og máttlausar.

Bæjarstjóri hafnar auknu samstarfi fyrir hönd meirihlutaflokkanna

Sveitarfélögunum er því verulegur vandi á höndum. Þau horfa fram á tekjufall samfara aukinni þjónustuþörf. Á Akureyri, undir forystu Samfylkingarinnar, fór bæjarstjórnin þá leið að taka höndum saman um að finna leiðir út úr þessari erfiðu stöðu. Þau ákváðu að leggja niður hefðbundna meiri-og minnihluta þannig að öll bæjarstjórnin starfar nú saman í samhentum meirihluta. Þessu fyrirkomulagi hefur bæjarstjóri Hafnarfjarðar hafnað fyrir hönd Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og telur enga þörf á slíku samstarfi við þessar aðstæður.

Framsókn fylgir í blindni

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði hefur valið aðra leið. Hann hefur ákveðið að veðja á hamfarakapítalisma frekar en aukið samstarf bæjarstjórnar. Meirihlutinn ætlar að selja almannaeigur til að takast á við efnahagslegar áskoranir í kjölfar Kórónuveirukreppunnar og ætlar að selja hlut bæjarins í HS Veitum.

Áhugi Sjálfstæðisflokksins á því að nýta sér efnahagshamfarir til að selja eigur almennings kemur engum á óvart. Það kemur hins vegar á óvart – og veldur nokkrum vonbrigðum – að hryggjarstykkið í Framsóknarflokknum skuli ekki vera sterkara en raun ber vitni. Sú von að þar innandyra myndu einhverjir a.m.k. hafa efasemdir um að elta Sjálfstæðisflokkinn út í einkavæðingarfenið dvínar með hverjum deginum sem líður. Síðast þegar þessir tveir flokkar voru í meirihluta í Hafnarfirði einkavæddu þeir skólabyggingar og gerðu tilraun til að einkavæða skólastarfið í einum hverfisskóla. Sú tilraun endaði úti í skurði. Hvað reyna þessir flokkar að einkavæða næst; vatnsveituna, höfnina eða skólana aftur?

Veikt lýðræðislegt umboð meirihlutans

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur færri atkvæði á bakvið sig en minnihlutinn í bæjarstjórn og þá eru ótalin atkvæðin sem féllu dauð í síðustu kosningum. Lýðræðislegt umboð hans er því mjög veikt og er það sérstaklega slæmt í stórum og veigamiklum málum. Lýðræðishallinn verður svo ennþá meiri ef þau mál voru ekkert rædd í aðdraganda síðustu bæjarstjórnarkosninga líkt og á við í þessu stóra máli. Salan á hlut bæjarins í HS Veitum kallar því á aðkomu kjósenda. Meirihlutinn í Hafnarfirði byggir hins vegar á gamaldags gildum og sér ekkert athugavert við það að valta yfir minnihlutann þrátt fyrir augljóslega veikt lýðræðislegt umboð.

Samfylkingin stendur vörð um hagsmuni bæjarbúa og er andvíg sölu á mikilvægum innviðum í almannaeigu við þessar aðstæður og leggst því alfarið gegn sölu á hlut bæjarins í HS Veitum.

Árni Rúnar Þorvaldsson
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

 

 

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2