fbpx
Föstudagur, janúar 10, 2025
target="_blank"
HeimFréttirSkipulagsmálHefur áhyggjur af of þéttri byggð á Dvergsreit

Hefur áhyggjur af of þéttri byggð á Dvergsreit

Sigurjón Elíasson íbúi við Lækjargötu skrifar

Framundan er hönnun húsabyggðar á Dvergsreit. Í dag geta gangandi sem akandi vegfarendur notið fegurðar Hamarsins úr götuhæð þegar Dvergur er farinn. Samkvæmt nýjum tillögum þá mun þessi sýn að mestu hverfa ásamt stórum hluta Hamarsins og mörgum friðuðum húsum sem Hafnar­fjörður er þekktur fyrir því sumar nýbygginganna eru hærri en Dvergurinn var. Sjá fundargerð skipulags- og bygg­ingar­ráðs, 3. 1708458 – Lækjargata 2, deili­skipulag á vef Hafnar­fjarðar­bæjar

Búið er að þrengja útsýni frá og að Hamrinum með byggingum þétt við Gúttó og Brekkugötuna. Sjá teikningar úr fundargerð.

Hér sést hækkunin með samanburði við friðuðu húsin allt í kring. Skástrikaða svæðið er gamla Dvergshúsið, gulu reitirnir eru nýju byggingarnar. Á Brekku­götumyndinni má sjá að nýbyggingarnar eru mun hærri en Dvergs­byggingin. Gútto sést til hægri á Suðurgötumyndinni og sést hæðar­mun­urinn vel á þessari mynd miðað við hið einstaka hús sem Gúttó er.

Í dag sjáum við fegurð Hamarsins og friðuðu húsanna. Við sjáum hvað Dvergs­­byggingin var ótrúlegt slys á sínum tíma. Það er því tímaskekkja að miða fyrirætlað byggingarmagn við gamla Dvergshúsið, það eru úreltar forsendur. Það á að miða byggingar­magnið við friðuðu húsin og leyfa þeim að njóta sín. Nú getum við um frjálst höfuð strokið og sett Hamarinn og umhverfið í öndvegi.

Á Selfossi fóru menn þá leið að leyfa bæjarbúum að kjósa um ákveðnar skipu­lagstillögur. Bæjaryfirvöld geta sýnt í verki þau áform að vinna með bæjarbúum og leyft þeim að hafa síðasta orðið með formlegri könnun. Hægt væri að hanna könnunina í samvinnu við bæjarbúa þannig að allir væru sáttir um fram­kvæmd hennar og leyfa bæjarbúum að kjósa líkt og Selfyssingar gerðu. Ham­ar­inn á það alveg inni eftir að hafa verið í fjötrum fortíðarmistaka í tugi ára. Njótum útsýnisins upp á Hamarinn og af honum. Stefnum á lægri byggingar sem hindra ekki útsýn heldur varðveita heildarsvip og sérkenni svæðisins. Samkvæmt Skipulagslögum og lögum um menningarminjar er kveðið á um ítarlegar húsarannóknir á svæðum sem talin eru viðkvæm og hafa sögulegt gildi þegar aðalskipulag og deiliskipulag er unnið. Gefið íbúum Hafnarfjarðar, ykkar umbjóðendum, kost á að meta þá úttekt og vöndum okkur í þessu mikilvæga máli.

Sigurjón Elíasson, íbúi við Lækjargötu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2