fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanHjólreiðaáætlun fyrir Hafnarfjörð strax

Hjólreiðaáætlun fyrir Hafnarfjörð strax

Davíð Arnar Stefánsson skrifar

Hjólreiðar eru vaxandi í Hafnarfirði líkt og víðar. Sífellt fleiri hjóla erinda sinna – til vinnu, í búð eða í frístundum. Þá eru æ fleiri sem æfa einhverskonar hjólreiðar – á götuhjólum, fjallahjólum, BMX og hvað eina. Þetta er bæði jákvæð þróun og nauðsynleg.

Hjólreiðar hafa jákvæð áhrif á heilsu og þær eru einfaldar og ódýrar. Auk þess sem hjól eru gjarnan fyrstu farartæki yngstu bæjarbúanna sem verða sjálfbærir í skólann eða í tómstundir. En þær eru líka nauðsynlegar til að draga úr akstri, minnka slysahættu í umferðinni og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Með tilliti til landslags og veðurfars er Hafnarfjörður ágætur hjólreiðabær. Stærstan hluta ársins er veðurfarið þolanlegt og landslagið ekki ýkja torfært. Hins vegar vantar mikið upp á stefnumörkun, skipulag og innviði.

Bærinn hefur sett sér að markmiði að auka hlut hjólandi í samgöngunum en ekki markað sér stefnu né aðgerðaáætlun – hjólreiðaáætlun. Stefnan þarf að ná til skipulags bæjarins og til annarra stefnumótandi leiðbeininga sem bærinn hefur sett sér. Það þýðir að það þarf að gera ráð fyrir hjólum í skipulaginu og byggja innviði – hjólastíga, hjólareinar, hjólavísa, skýli og standa fyrir hjól. Jafnframt þarf að breyta regluverki, minnka vægi bílanna í umferðinni, lækka hámarkshraða, þrengja götur þar sem við á, og fækka bílastæðum til að koma fyrir innviðum fyrir hjól. Öðruvísi verður markmiðinu ekki náð.

VG í Hafnarfirði gerir að áherslumáli sínu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor að gerð verði framsýn hjólreiðaáætlun fyrir bæinn. Raunar hefur bærinn þegar ákveðið að gera það. Í Umhverfis- og auðlindastefnum Hafnarfjarðar (2018) segir að ráðast skuli í stefnumótun um hjólreiðar í sveitarfélaginu fyrir vorið 2019. Jafnframt verður að fylgja djörf aðgerðaáætlun. Og auðvitað fjármagn. Mun meira fjármagn en hingað til.

Göngum lengra og gerum hjólreiðar að alvöru samgöngukosti í bænum.

Davíð Arnar Stefánsson
sem skipar fyrsta sæti á lista VG í Hafnarfirði

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2