Við Vinstri Græn erum umhverfisverndarflokkur sem beitum okkur fyrir heilnæmara umhverfi fyrir íbúa Hafnarfjarðar. Áhersla fyrir þessar kosningar er að draga úr mengun í bænum og við ætlum því að minnka plastnotkun, bæta flokkun á sorpi og draga úr umferð einkabíla.
Við í VG erum ekki hrædd við að hugsa stórt og til framtíðar. Allt of oft er viðkvæðið hjá stjórnvöldum og hagsmunaaðilum „nei, það er ekki hægt“ en við segjum það er víst hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Öllum er ljóst að umferð þungaflutninga á ekkert erindi í miðbæ okkar Hafnfirðinga og neðri partur Reykjavíkurvegar er gott dæmi um þetta. Hann er þröng íbúagata þar sem umferð stórra díselknúinna fólksflutninga- eða vörubifreiða eiga ekkert erindi. Fyrir utan þá mengun sem slíkri umferð fylgir sjást ljót merki um þær skemmdir sem þungar bifreiðar hafa valdið á umferðarmannvirkjum. Hringtorgið á mótum Arnarhrauns og Reykjavíkvegar er næstum ónýtt en oft má sjá stórar bifreiðar tefja umferð meðan þær bakka fram og aftur yfir hringtogið sjálft og spúa auk þess útblæstri yfir nágrennið. Við viljum bæta leiðarkerfi Strætó með því að gera ferðir tíðari því með aukinni notkun almenningssamganga getum við minnkað mengun í bænum okkar.
Við í VG leggjum áherslu á að við bæjarbúar minnkum notkun á plasthlutum og að bærinn verði plastpokalaus. Þetta felur í sér að verslanir og þjónustuaðilar í Hafnarfirði hætti að afhenda eða selja viðskiptarvinum sínum plastpoka. Þetta er einföld aðgerð enda flestum ljóst í dag að nokun plasts í verslun og þjónustu er allt of mikil og margir aðrir valkosti eru mögulegir. Við viljum að flokkun sorps í bænum verði bætt og boðið verði upp á fleiri möguleika bæði í grendargámum og í sorpílátum við heimili. Ég hvet alla til að velja betra og hreinna umhverfi og gera betur með Vinstri Grænum.
Fjölnir Sæmundsson
skipar 2. sæti hjá VG fyrir bæjarstjórnarkosningarnar.