fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanHugleiðing um fasteignaskatta í Hafnarfirði

Hugleiðing um fasteignaskatta í Hafnarfirði

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir skrifar

Þegar fasteignaverð hækkar þá er það alls ekki lögmál að fasteignaskattar hækki líka. Þeir sem stýra sveitarfélögum hafa talsvert mikið svigrúm til að ákvarða þá, því lögum samkvæmt er ekkert lágmark á álagningarhlutfallinu og því auðvelt að lækka það með hækkandi fasteignaverði.

Frá 1. janúar 2014 til 1.janúar 2018 hækkaði vísitala neysluverðs um 7,43%. Á sama tímabili, síðan núverandi meirihluti tók við, hækkuðu fasteignaskattar í Hafnarfirði mun meira eða á bilinu 33-50%. Sem dæmi má skoða annars vegar 172 fermetra einbýlishús í Setbergi og hins vegar 119 fermetra, 4 herbergja íbúð í Áslandi. Á tímabilinu hækkuðu fasteignaskattarnir um 37,85% fyrir einbýlishúsið og um 49,11% fyrir íbúðina. Eigendur fasteignanna eru því árið 2018 að borga annars vegar 45 þúsund og hins vegar 36 þúsund meira í fasteignagjöld heldur en ef gjöldin hefðu fylgt vísitölu neysluverðs.

Til að bæta gráu ofan á svart hækkaði núverandi meirihluti fasteignaskattinn um 21% fyrir árið 2016, sem magnaði enn frekar upp hækkun fasteignaskatta næstu tvö árin á eftir, þó að fyrir 2018 sé álagningarhlutfallið orðið það sama og árið 2014.

Til þess að fasteignaskattar hækki ekki umfram verðbólgu þá þarf bæjarstjórn að lækka álagningarhlutfallið. Ef hún gerir það ekki, þá á það að vera upp á borðinu að það sé verið að leggja auknar álögur á bæjarbúa. Það er ekki eðlilegt að bæjaryfirvöld nýti sér þegjandi og hljóðalaust þær hækkanir sem eru á húsnæðismarkaðnum. Með betri stefnu í húsnæðismálum hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessar hækkanir. Fólk á nóg með að ráða við hærra húsnæðisverð þó að ekki komi til auknar álögur í formi fasteignaskatta.

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir
stærðfræðingur og skipar áttunda sæti á lista Samfylkingarinnar í bæjarstjórnarkosningunum

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2