Gott bæjarfélag byggist á heilbrigðri blöndu íbúa af öllum aldri og atvinnulífs af ýmsum toga. Á liðnum árum hefur Hafnarfjörður átt undir högg að sækja í atvinnumálum og er mikilvægt að sækja fram svo fjölbreytni atvinnulífsins aukist. Kröftugt atvinnulíf er til þess fallið að laða til sín hæfileikaríkt og vel menntað ungt fólk sem byggir framtíð sína hér. Má þar gera mikla bragarbót, t.a.m. með lækkun álaga á fyrirtæki og kröfu um að opinberar stofnanir verði settar hér niður, sem áður var.
En þó atvinna sé góð er aðgengi að húsnæði mögulega sá þáttur sem mestu ræður um búsetu einstaklinga. Dylst það engum hvernig ástand er í húsnæðismálum og þá einkum á höfuðborgarsvæðinu. Eru það því nokkur vonbrigði að samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins hefur íbúðum í byggingu í Hafnarfirði fækkað ár frá ári, þó þörfin fyrir nýbyggingar hafi vaxið samhliða. Ennfremur hafa áherslur í íbúðabyggingu snúið frekar að stærri íbúðum sem mæta ekki þeirri þörf sem til staðar er. En þó umræðan sé oft bundin við málefni yngra fólks og þeirra sem eru að koma inn á fasteignamarkaðinn má ekki hjá líðast að horfa einnig til þeirra sem eldri eru.
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands mun fjöldi þeirra sem er 60 ára og eldri tvöfaldast á næstu þrjátíu árum. Þessum aukna fjölda íbúa þarf að mæta með fjölbreyttum búsetuúrræðum sem gera einstaklingum kleift að haga búsetu sinni í takti við eigin vilja og getu. Hafnarfjörður er vel í stakk búinn til að mæta þörfum þessa aldurshóps.
Hafnarfjörður býr við gnótt tækifæra. Það er okkar að sækja fram og tryggja að þau raungerist. Kjósum M flokkinn 26. maí.
Elínbjörg Ingólfsdóttir
skipar 6. sæti á lista Miðflokksins í Hafnarfirði.