Húsnæðismál eru mikilvægt velferðarmál. Því er nauðsynlegt að bæjaryfirvöld leggi mikla áherslu á að gera vel í þeim málum svo allir hafi þak yfir höfuðið. Í Hafnarfirði er mikill skortur á félagslegum íbúðum og óskaði Samfylkingin því eftir upplýsingum um fjölda þeirra sem og fjölda á biðlista. Fram kom að 257 íbúðir eru í félagslega kerfinu hjá Hafnarfjarðarbæ og að 67 fjölskyldur eru á biðlista. Til þess að hlutfall félagslegra íbúða miðað við íbúðafjölda verði það sama og í Reykjavík þá vantar 221 íbúð inn í kerfið. Síðustu fimm ár hafa verið keyptar að meðaltali 4,2 íbúðir inn í félagslega kerfið í Hafnarfirði. Miðað við þessa fjölgun íbúða þá tekur það Hafnarfjörð tæplega 16 ár að tæma núverandi biðlista og tæplega 53 ár að ná hlutfalli Reykjavíkur.
Viljayfirlýsing marklaust plagg
Árið 2016 gerðu Hafnarfjarðarbær og ASÍ viljayfirlýsingu um uppbyggingu leiguíbúða í Hafnarfirði. Stefnt var að úthlutun lóða fyrir 150 leiguíbúðir á árunum 2016-2019. Til stóð að úthluta lóðum fyrir 105 íbúðir fyrir lok þessa árs. Engar íbúðir eru komnar í byggingu þó svo að nú í október hafi bæjaryfirvöld gefið Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir lóðum í Hamranesi, svæði sem er ekki búið að skipuleggja og ekki víst hvenær vinna við þær íbúðir muni byrja. Ef staðið hefði verið við viljayfirlýsinguna frá 2016 þá væru 105 íbúðir komnar í byggingu og Fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðar hefði haft ráðstöfunarrétt yfir 26 þeirra. Það er rúmlega þriðjungur biðlistans.
Hafnarfjörður rekur lestina
En það er ekki bara skortur á félagslegum íbúðum í Hafnarfirði heldur einnig á nýbyggingum. Samkvæmt Samtökum iðnaðarins standa Hafnarfjörður og Seltjarnarnes sig langverst þegar kemur að hlutfalli íbúða í byggingu af heildarfjölda íbúða. Í Mosfellsbæ eru 541 íbúð í byggingu og er það 15,1% af íbúðum í sveitarfélaginu, í Hafnarfirði eru 122 íbúðir í byggingu eða 1,2% af íbúðum bæjarins. Þessi staða kemur í veg fyrir að unga fólkið í bænum komist út á húsnæðismarkaðinn og stuðlar að lengri biðlistum í félagslega kerfinu.
Það er brýnt að þeir sem halda um stjórnartaumana í Hafnarfirði taki á þessum málum sem allra fyrst enda eru það mannréttindi að hafa þak yfir höfðið.
Sigurbjörg Anna Guðnadóttir,
fulltrúi Samfylkingar í menningar- og ferðamálanefnd.
Greining birtist fyrst í Fjarðarfréttum 1. nóvember sl.