fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimUmræðanHúsnæðisvandinn í Hafnarfirði

Húsnæðisvandinn í Hafnarfirði

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir skrifar

Húsnæðismál eru mikilvægt vel­ferðar­mál. Því er nauðsynlegt að bæjar­yfirvöld leggi mikla áherslu á að gera vel í þeim málum svo allir hafi þak yfir höfuðið. Í Hafnarfirði er mikill skortur á félagslegum íbúðum og óskaði Samfylkingin því eftir upplýs­ingum um fjölda þeirra sem og fjölda á biðlista. Fram kom að 257 íbúðir eru í félags­lega kerfinu hjá Hafnar­fjarðarbæ og að 67 fjölskyldur eru á biðlista. Til þess að hlutfall félagslegra íbúða miðað við íbúðafjölda verði það sama og í Reykjavík þá vantar 221 íbúð inn í kerfið. Síðustu fimm ár hafa verið keyptar að meðaltali 4,2 íbúðir inn í félagslega kerfið í Hafnarfirði. Miðað við þessa fjölgun íbúða þá tekur það Hafnarfjörð tæplega 16 ár að tæma núverandi biðlista og tæplega 53 ár að ná hlutfalli Reykja­víkur.

Viljayfirlýsing marklaust plagg

Árið 2016 gerðu Hafnarfjarðarbær og ASÍ viljayfirlýsingu um uppbygg­ingu leiguíbúða í Hafnarfirði. Stefnt var að úthlutun lóða fyrir 150 leiguíbúðir á árunum 2016-2019. Til stóð að úthluta lóð­um fyrir 105 íbúðir fyrir lok þessa árs. Engar íbúðir eru komn­ar í byggingu þó svo að nú í október hafi bæjar­yfir­völd gefið Bjargi íbúða­félagi vilyrði fyrir lóðum í Hamra­­nesi, svæði sem er ekki bú­ið að skipuleggja og ekki víst hvenær vinna við þær íbúðir muni byrja. Ef staðið hefði verið við viljayfir­lýsing­una frá 2016 þá væru 105 íbúð­ir komn­ar í byggingu og Fjöl­skyldu­þjón­usta Hafnar­fjarð­ar hefði haft ráð­stöfunarrétt yfir 26 þeirra. Það er rúmlega þriðj­ungur bið­listans.

Hafnarfjörður rekur lestina

En það er ekki bara skortur á félags­legum íbúðum í Hafnar­firði heldur einnig á nýbyggingum. Sam­kvæmt Sam­tökum iðnaðarins standa Hafnar­fjörður og Seltjarnarnes sig lang­verst þegar kemur að hlutfalli íbúða í bygg­ingu af heild­arfjölda íbúða. Í Mos­fellsbæ eru 541 íbúð í byggingu og er það 15,1% af íbúðum í sveitarfélaginu, í Hafnarfirði eru 122 íbúðir í byggingu eða 1,2% af íbúðum bæjarins. Þessi staða kemur í veg fyrir að unga fólkið í bænum komist út á húsnæð­is­markaðinn og stuðlar að lengri biðlistum í félags­lega kerfinu.

Það er brýnt að þeir sem halda um stjórna­rtaumana í Hafnarfirði taki á þess­um málum sem allra fyrst enda eru það mannréttindi að hafa þak yfir höfðið.

Sigurbjörg Anna Guðnadóttir,
fulltrúi Samfylkingar í menningar- og ferðamálanefnd.

Greining birtist fyrst í Fjarðarfréttum 1. nóvember sl.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2