fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
target="_blank"
HeimFréttirUmhverfiðHvað getum við gert betur fyrir umhverfið og loftslagsmálin í Hafnarfirði?

Hvað getum við gert betur fyrir umhverfið og loftslagsmálin í Hafnarfirði?

Helga Ingólfsdóttir skrifar

Öll vitum við að taka þarf til víðtækra aðgerða í loftslagsmálum til þess að sporna við hlýnun jarðar af losun gróðurhúsategunda og nýleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna sem birt var í þessum mánuði er enn ein staðfesting þess hversu mikilvægt það er að draga verulega úr losun til þess að ná viðmiðum Parísar samkomulagsins sem Ísland er hluti af. Skýrslan sýnir með ótvíræðum hætti að það eru athafnir manna sem hafa hitað lofthjúpinn, haf og landsvæði og þessar breytingar eru fordæmalausar þegar litið er til síðustu alda.

80 prósent af ferðum íbúa eru innanbæjarferðir

Umhverfismál varða okkur öll og við getum öll lagt okkar af mörkum til þess að  markmið um minni losun náist.  Samgöngur skipta þar miklu og við Hafnfirðingar búum við góð skilyrði til þess að auka vistvænar samgöngur innan bæjarlandsins. 80% af ferðum í Hafnarfirði eru ferðir sem eru farnar innan bæjar og það er því til mikils að vinna að fjölga vistvænum ferðum bæjarbúa. Lega bæjarins í kringum höfnina og miðbæinn gerir það að verkum að vegalengdir íbúa til þess að sækja vinnu og þjónustu er yfirleitt ekki lengri en svo að það vel er hægt að ganga eða hjóla drjúgan hluta af þeim ferðum sem farnar eru.

Minnkum skutl og fjölgum vistvænum ferðum!

Grunnskólar bæjarins eru almennt staðsettir í miðju hverfanna og að jafnaði ekki löng vegalengd fyrir nemendur að ganga í skólann og það er viðurkennt að sú hreyfing skilar sér í betra jafnvægi nemenda.  Það sýna rannsóknir og einn grunnskóli í Hafnarfirði, Skarðshlíðarskóli hefur það sem eitt af sínum verkefnum að nemendur gangi 1 mílu á dag sem samsvarar um 1,6 kílómetra en það er einmitt sama vegalengd og miðað er við að sé að öllu jöfnu ekki lengri fyrir börn sem ganga í skólann sinn.

Íþrótta- og tómstundalíf er ákaflega fjölbreytt í Hafnarfirði og margir möguleikar fyrir börn og ungmenni að stunda æfingar og tómstundir.  Strætó BS keyrir þrjár leiðir í Hafnarfirði og leiðanetið gerir börnum og ungmennum auðvelt að nota strætó til þess komast á sínar æfingar. Leið 19 er innanbæjarleið sem byrjar á Ásvöllum og endar á Kaplakrika með viðkomu í flestum hverfum og miðbænum.  Leið 1 og leið 21 ásamt leið 19 mynda þétt net innan bæjar þannig að foreldrar geta minnkað skutl og þannig stuðlað að því að fjölga vistvænum ferðum innanbæjar.  Það er frítt í strætó fyrir börn undir 12 ára og mjög hóflegt gjald fyrir ungmenni að 17 ára aldri.

Umhverfis- og loftslagsmálin munu á komandi árum verða æ stærri þáttur í lífi okkar með breytingum á lífsháttum sem óhjákvæmilega eru fylgifiskur þess að sporna við hlýnun jarðar.  Við getum öll gert eitthvað og saman getum við gert heilmikið.  Hvert skref skiptir máli.

Helga Ingólfsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 3. tbl. 19. árg. – 31. ágúst 2021.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2