Það er stundum athyglisvert að staldra við og kanna hvað býr að baki þeim ákvörðunum sem við tökum í lífinu og þáttaka í prófkjöri er á margan hátt töluverð naflaskoðun og gagnleg á margan hátt.
Mótun hvers einstaklings er margvísleg en þegar ég var að alast upp var samfélagið ekki það neyslusamfélag sem það er í dag, stórmarkaðir og verslunarmiðstöðvar voru ekki til, ömmur voru flestar heimavinnandi húsmæður og matarinnkaup fóru fram hjá kaupmanninum á horninu. Ég dvaldi löngum stundum á Hamarsbrautinni hjá föðurömmu minni sem krakki. Ekki voru nú auraráðin mikil og til að hafa pappír fyrir mig að teikna á var ég send með gömul lök í Prentsmiðju Hafnarfjarðar á Suðurgötunni og fékk þá pappírsafskurð úr vélunum í staðinn. Þetta heitir í dag endurnýting og ég tel að við gætum gert meira af því að skoða með hvaða hætti við getum nýtt betur þau verðmæti sem okkur eru falin, hvort heldur það eru landsins gæði eða afrakstur okkar eigin vinnu.
„Ég á mig sjálf“
Eitt sinn þegar ég kom í prentsmiðjuna sennilega ekki eldri en 5 ára vék sér að mér einn prentarinn og spurði mig hver ætti mig. Ég svaraði kokhraust að bragði: „Ég á mig sjálf“ Prentarinn hét Haukur og var giftur frænku hennar mömmu og vissi fullvel hverra manna ég var en ég hef alltaf verið þakklátt fyrir spurninguna því svarið geymi ég með ávallt með mér.
Ég var líka send í búðina en kaupmaðurinn á horninu voru Lára og Laugi sem margir Hafnfirðingar muna eftir. Mitt fyrsta launaða starf var í þessari kjörbúð þegar ég var á þrettánda ári og á þeim tíma voru ekki smálán og kreditkort til staðar til þess að fleyta fólki fram yfir mánaðarmót. Ábyrgð kaupmannsins var því töluverð þar sem fyrir suma í hverfinu var það lífsnauðsynlegt að fá skrifað í búðinni í lok mánaðarins til þess að geta haft mat á borðum. Fyrir mig, unglinginn í sinni fyrstu sumarvinnu hafði það áhrif á lífsviðhorf mín til frambúðar að kynnast því hve mismunandi kjör og aðstæður fólkið í hverfinu bjó við.
Úr þessum jarðvegi bernsku minnar spretta hugsjónir jafnréttis og sjálfbærni sem ég vil vinna að fyrir mitt samfélag.
Helga Ingólfsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi sem fer fram 10. september n.k.