Skarðshlíðarhverfið í Hafnarfirði er eina íbúðahverfið á höfuðborgarsvæðinu sem hefur verið tilbúið til úthlutunar og framkvæmda frá því fyrir hrun. Þar hafa jafnvel verið tilbúnar götur, ljósastaurar og aðrir grunninnviðir og ekkert til fyrirstöðu að hefja þar byggingu íbúðarhúsnæðis. Þörfin má öllum vera orðin löngu ljós og eflaust margir sem hafa spurt sig þeirrar spurningar hvers vegna ekkert bólar á úthlutun lóða á þessu svæði.
Framboð ekki í samræmi við eftirspurn
Í ljósi þess ástands sem hefur verið ríkjandi á húsnæðismarkaði og mikillar eftirspurnar eftir lóðum til nýbygginga er með öllu óskiljanlegt að meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafi ákveðið að bíða með úthlutun lóða á svæðinu þar til undir lok yfirstandandi kjörtímabils. Á sama tíma hefur framboð lóða í sveitarfélaginu verið mjög takmarkað og fjölgun íbúða hvorki í samræmi við þörf né uppbyggingu í nágrannasveitarfélögunum. Til samanburðar má nefna að umtalsvert fleiri íbúðir eru nú í byggingu í Garðabæ en í Hafnarfirði og nærri helmingi fleiri í Kópavogi.
Stefnumörkun til framtíðar
Teljum við brýnt að ekki verði frekari tafir á úthlutun lóða í Skarðshlíðarhverfi og hugað verði að framtíðarstefnumörkun í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í bænum, hvort sem það felst í þéttingu eldri byggðar eða í skipulagningu nýrra íbúðahverfa. Þriðja stærsta sveitarfélag landsins getur ekki haldið áfram að skila auðu í húsnæðismálum.
Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Elva Dögg Ásudóttir-Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna
Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar