fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkÍ hvernig bæ viljum við búa? 

Í hvernig bæ viljum við búa? 

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Sveitarstjórnarkosningar fara fram 14. maí. Flokkar og frambjóðendur leggja þá fram stefnu sína og framtíðarsýn fyrir bæinn og reyna að svara spurningunni um í hvers konar bæ við viljum búa. Ég býð mig fram í 1. sætið á lista Samfylkingarinnar í flokksvali flokksins sem fram fer 12. febrúar. Því ætla ég í stuttu máli að útlista hér hvernig bæ ég vil sjá.

Lýðræðisbærinn Hafnarfjörður

Virkt íbúalýðræði er ein af grunnstoðum opinnar stjórnsýslu. Ávinningurinn af samráðsmenningu innan sveitarfélags er margvíslegur. Hún ýtir undir ánægju íbúa og virka þátttöku þeirra í starfsemi, stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélagsins. Bæjarfélagið á því að leita meira til íbúa og auka þátttöku þeirra í stjórnun og stefnumótun sveitarfélagsins.

Velferðarbærinn Hafnarfjörður

Með sterkri almennri velferðarþjónustu er lagður grunnur að réttlátu samfélagi. Mikilvægt er að í bæjarstjórn veljist fólk sem er umhugað um velferðarþjónustuna, hópana sem nýta sér hana og fólkið sem starfar innan hennar. Einnig lít ég svo á að það sé hlutverk bæjarstjórnar að jafna byrðarnar í samfélaginu með því að létta álögur á barnafjölskyldum og tekjulægri hópum.

Mennta- og frístundabærinn Hafnarfjörður

Menntastefna bæjarins á að byggja á gildum um jöfnuð, félagslegt réttlæti og mannréttindi. Verkefni skólanna er að jafna stöðu nemenda þannig að allir nemendur, óháð efnahag, geti þroskað hæfileika sína til þess að geta nýtt tækifærin sem þeim bjóðast. Það er því grundvallaratriði að halda gjaldtöku í lágmarki í skólastarfi. Auk þess eiga öll börn og unglingar að geta tekið þátt í skipulögðu frístundastarfi óháð efnahag.

Skipulag og samgöngur

Samgöngu- og skipulagsmál tengjast nánum böndum og samþætting þeirra er lykilatriði fyrir þróun byggðar. Skipulagið á að þróast á forsendum íbúanna, fjölbreytts mannlífs og lífsgæða. Í þessu samhengi skiptir uppbygging Borgarlínunnar og efling almenningssamgangna meginhlutverki. Skipulag bæjarins á að vera vistvænt, styðja við lýðheilsu og stuðla að félagslegri blöndun.

Ég óska eftir stuðningi ykkar í 1. sætið

Ég ber almannahag fyrir brjósti og er tilbúinn til þess að vinna að hag bæjarbúa með þessi gildi í farteskinu. Ég óska eftir stuðningi jafnaðarfólks í 1. sætið á lista Samfylkingarinnar í flokksvalinu 12. febrúar og er tilbúinn til þess að leiða Samfylkinguna til sigurs í bæjarstjórnarkosningum í vor.

Árni Rúnar Þorvaldsson varabæjarfulltrúi

Höfundur býður sig fram til að leiða lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í næstu bæjarstjórnarkosningum.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum 2. tbl. 20. árg. – 2. febrúar 2022.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2