Virkt íbúasamráð er forsenda farsællar ákvarðanatöku. Meiri sátt ríkir um ákvarðanir bæjarstjórnar sem byggja á virku samráði – í stórum málum sem smáum.
Áherslan á lýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð er grunnstoð í stefnu Samfylkingarinnar. Í huga jafnaðarmanna er lýðræðið meira en bara kosningar á fjögurra ára fresti. Lýðræðisleg vinnubrögð fela í sér margvíslega möguleika fyrir almenning til að hafa áhrif á gang mála og ákvarðanir stjórnvalda á milli kosninga, allt frá einföldum hverfafundum yfir í allsherjar íbúakosningar um stærri mál.
Stór skref stigin undir forystu Samfylkingarinnar
Þegar Samfylkingin stýrði málum í Hafnarfirði varð bærinn leiðandi á meðal sveitarfélaga í þróun lýðæðismála og nýsköpun í stjórnsýslu. Þá voru stigin stór skref til aukinnar þátttöku íbúa í mikilvægum ákvörðunum. Árið 2002 var bæjarbúum tryggður réttur til þess að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál. Einnig höfðu jafnaðarmenn forgöngu um að stofna notenda- og ráðgjafaráð og í dag eru starfandi ungmenna- og öldungaráð og ráðgjafaráð í málefnum fatlaðs fólks og fjölmenningaráð. Aðkoma ráðanna að málum sem varða hagsmuni þeirra er ómetanleg og við eigum að halda áfram styðja þau og bæta umgjörð þeirra til að sinna verkum sínum. Jafnaðarmenn vísa því með stolti til fyrri verka sinna í lýðræðismálum í Hafnarfirði og við ætlum að gera enn betur.
Aukum þátttöku íbúa
Ávinningurinn af samráðsmenningu innan sveitarfélags er margvíslegur. Slík menning ýtir undir ánægju íbúa og virkari þátttöku þeirra í starfsemi, stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélagsins. Það er því til mikils að vinna og með markvissum aðgerðum eigum við hiklaust að stefna að því að leita meira til íbúa og auka þátttöku þeirra í stjórnun og stefnumótun sveitarfélagsins. Og það munu jafnaðarmenn gera í meirihluta á næsta kjörtímabili – að sjálfsögðu.
Árni Rúnar Þorvaldsson.
bæjarfulltrúi og skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.