Lokaðu augunum og farðu í huganum á uppáhalds staðinn þinn. Dveldu þar, finndu tilfinninguna. Hvernig líður þér þar? Langar þig til að fara aftur og dvelja þar?
Lokaðu aftur augunum og sjáðu fyrir þér einhvern stað undir berum himni í miðbæ Hafnarfjarðar, dveldu þar í huganum. Finndu tilfinninguna, hvernig líður þér? Langar þig þangað aftur?
Rannsóknir sýna að maðurinn leitar fyrst og fremst eftir öryggi og tengslum við náttúruna í því umhverfi sem hann vill lifa í. Þannig stuðlar hann að heilbrigði og hamingju. Þar vill hann lifa og dvelja.
Við skipulag borga og bæja ætti fyrst og fremst að ganga út frá þessum óyggjandi niðurstöðum. Því skipulag manngerðs umhverfis á að vera fyrir manneskjuna fyrst og fremst.
Í dag er miðbær Hafnarfjarðar fyrst og fremst fyrir bíla. Einhverra hluta vegna eru öll dýrmætustu svæðin í miðbænum helguð bílastæðum og götum fyrir akandi umferð.
Rannsóknir sýna að akandi umferð ógnar öryggi okkar. Við upplifum okkur óörugg og forðumst að vera á þannig stöðum.
Getur verið að íbúar Hafnarfjarðar forðist miðbæinn sinn því þeim finnst hann ógna öryggi sínu?
Hér er vitnað í vísindalegar rannsóknir ekki brjóstvitið.
VG í Hafnarfirði vill leggja sitt af mörkum til að gera miðbæ Hafnarfjarðar að stað þar sem allt skipuleg er hugsað fyrir íbúa bæjarins til að upplifun, vellíðan og öryggi sé til staðar og að hann sé eftirsóknarverður staður. Til þess þarf að takmarka stórlega akandi umferð um miðbæinn okkar. Fækka bílastæðum og fjölga grænum lifandi svæðum fyrir fólk, nota bílakjallara við Fjörð fyrir bílastæði, ekki sem geymslu eða atvinnuhúsnæði.
Það er stærsta lýðheilsu- og umhverfismál okkar tíma að minnka notkun á bílnum. Því hvetjum við alla íbúa sem það geta til að prófa að skilja bílinn eftir heima a.m.k. þrisvar í viku og nota aðra samgöngumáta.
Jóhanna Marín Jónsdóttir
skipar 13. sæti VG Hafnarfirði.