fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimUmræðanKjósum að kjósa

Kjósum að kjósa

Albert Svan Sigurðsson skrifar

Hvað þýða öll þessi kosningaslagorð sem stjórnmálaflokkar nota fyrir kosningar? Sum slagorðin eru tvíræð, önnur tala beint til lesandans og enn önnur vísa til bæjarfélags eða staðhæfa eitthvað sem mörgum finnst jákvætt að lesa. Eru þau góð leið til að tala til kjósenda eða eru þau til að þjappa frambjóðendum og flokksbundnum saman?

Slagorðin hafa verið mýmörg í síðustu kosningum og eru hér í belg og biðu: „Þú skiptir máli, við lofum að hlusta á þig, valdið til þín, framtíðin er núna, heiðarleg stjórnmál. Vinnum saman, látum verkin tala, reynsla og þekking, traust forysta, samfélag fyrir alla, hvað vilja bæjarbúar? Árangur og ábyrgð. Settu X við okkur, okkar samfélag, göngum lengra, stöndum saman, ein heild, að sjálfsögðu. Gerum betur í Hafnarfirði. Árborg okkar allra, því framtíðin er í Kópavogi, fyrir Garðabæ.”

„Kveikjum á perunni. Lifandi bær – betri bær. Við getum gert það. Okkar málefni í þína þágu. Það skiptir máli hver stjórnar, skilum rauðu, gegn spillingu, traust efnahagsstjórn, land tækifæranna, gefðu framtíðinni tækifæri, lýðræði ekkert kjaftæði. Fólkið í forgang. Fyrir fólkið í bænum. Fólkið fyrst svo allt hitt, báknið burt, vertu memm. Bær fyrir alla. Skjóstu og kjóstu, við stöndum með þér, við boðum breytingar, gerum gott betra.“

En hvað þýðir þetta allt saman? Jú, hver stjórnmálaflokkur telur sig vera hæfastan til að hafa sína efstu fulltrúa í sveitarstjórn og slagorðin miðast við að flokkurinn komist til áhrifa og geti talið fólki trú um að þau nái árangri í bæjarmálum í takt við kosningarslagorð sitt. Í sumum tilfellum eru slagorðin einungis til skrauts.

Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum hefur farið minnkandi með árunum og var 67% á landsvísu árið 2018, í sumum bæjarfélögum mættu enn færri á kjörstað, t.d. í Hafnarfirði þar sem 58% kjósenda greiddu atkvæði. Þannig má draga þá ályktun að kosningaslagorðin séu ekki að virka til að auka lýðræðið, kannski hafa þau gagnstæð áhrif og fæla kjósendur frá, enda fólk orðið þreytt á innihaldslitlum staðhæfingum.

Píratar í Hafnarfirði hafa áhyggjur af þróuninni og því er kosningaslagorð Pírata í Hafnarfirði ‚Kjósum að kjósa’, sem er hvatning fyrir okkur öll að mæta á kjörstað, til að velja hver sína fulltrúa eða að skila auðu, fjöldi auðra atkvæða segir nefnilega táknræna sögu.

Albert Svan Sigurðsson,
skipar þriðja sæti á framboðslista Pírata í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2