fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkKjósum með hjartanu

Kjósum með hjartanu

Adda María Jóhannsdóttir skrifar

Næsta laugardag göngum við til kosninga, rétt ári eftir að kosið var síðast. Nú eins og þá er kosið vegna siðferðisbrests. Stjórnmálamenn hafa brugðist fólkinu í landinu, fólkinu sem veitti þeim umboð og treysti þeim til að vinna að almannahagsmunum.

Gæðunum misskipt

Þeir flokkar sem hafa verið við stjórn telja að hér drjúpi smjör af hverju strái og breytingar séu óþarfar. Þeir sem það sjónarmið hafa virðast ekki vera í neinum takti við meirihluta landsmanna, sem er ósáttur við að innan við 10% þjóðarinnar eigi næstum því jafnmikið og hin rúmlega 90%. Í því ríka samfélagi sem við búum er óásættanlegt að yfir sex þúsund börn líði skort. Það er staðreynd að skattbyrði hefur aukist mest hjá þeim lægst launuðu auk þess sem helmingur einstaklinga er dottinn út úr vaxtabótakerfinu og fjórða hver fjölskylda fær ekki barnabætur. Húsnæðisverð hefur rokið upp úr öllu valdi og unga fólkið okkar er fyrsta kynslóðin sem hefur það verr en kynslóðin á undan.

Við getum gert betur

Mantran um hærri skatta er hávær en gleymum ekki hvaðan hún kemur. Ójöfnuður eigna er mikill og því þurfum við sanngjarnara og réttlátara skattkerfi sem ekki einungis hentar ríkustu 10 prósentunum eins og nú er. Við getum það vel og Samfylkingin hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun í þeim efnum. Við eigum að hlúa betur að fólki og við eigum taka höndum saman um að útrýma fátækt á Íslandi. Við viljum búa í velferðarsamfélagi sem grípur okkur þegar á bjátar, samfélagi sem vinnur með okkur á öllum lífsskeiðum.

Við erum rík þjóð en gæðunum er misskipt og við getum gert svo miklu betur. Í stað þess að hafa hagsmuni almennings að leiðarljósi hafa sérhagsmunaöfl fengið að ráða för. Höfum þetta í huga þegar við göngum til kosninga. Nýtum kosningaréttinn og kjósum með hjartanu. Setjum X við S.

Adda María Jóhannsdóttir
skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2