Í upphafi var þráin
Nú þegar við þurfum að þreyja þorrann sem árstíð samhliða heimsfaraldri, fer ég í hugarferðalög og staðnæmist oft á þeim ferðum í Krýsuvík. Þar er endurreist, söguleg kirkja að þreyja þorrann umvafin skammdegisbirtu og miklu myrkri árstíðarinnar og heimsfaraldursins. Kannski verður hægt að vígja hana í vor og opna fyrir gestum og gangandi, enginn veit. Í næsta nágrenni hennar er listasafnið Sveinssafn til húsa í Sveinshúsi sem blasir blátt við augum frá kirkjunni séð. Þar er sams konar biðstaða á vetrum í magnaðri náttúrunni því vetrarríkið í Krýsuvík er stórbrotið; birtan, ísjakar á Kleifarvatni, gufustrókar upp úr snævi þakinni jörð Seltúns og Austurengja.
Það er stutt að fara frá höfuðborgarsvæðinu til Krýsuvíkur og eftir að leiðin var malbikuð og öryggisnet sett upp við hættulega staði er hægt að halda leiðinni opinni um vetur. Kirkjan og listasafnið mynduðu systrasamband listar og trúar fyrir tæpum 25 árum, sem m.a. birtist í því að þegar messað var í Krýsuvíkurkirkju fylgdi messukaffi á eftir í Sveinshúsi og aðgangur að listsýningum, oft opnunum. Sýningar Sveinssafns á verkum Sveins Björnssonar voru að jafnaði endurnýjaðar á tveggja ára fresti en að auki var hús hans allt til sýnis nánast eins og hann skyldi við það. Fólk naut þess að koma og finna þarna fyrir frumkrafti sköpunar og náttúru, sem blasir við í fjölbreytileik sínum út um glugga hússins. Þetta samband var óvænt rofið þegar kveikt var í kirkjunni í miklu myrkri árið 2010 og hún brennd til kaldra kola. En hún reis upp á 10 árum og var flutt fullbúin til Krýsuvíkur síðast liðið haust, fagurlega endursmíðuð af nemendum og kennurum Tækniskólans í Hafnarfirði. Hún var hífð fumlaust á grunn sinn við sólarupprás einn fagran haustmorgun 2020.
Kirkjur brenna og kirkjur rísa. Þessu marki er saga móðurkirkjunnar í Skálholti brennd, en Krýsuvíkurkirkja, sem biskupinn í Skálholti ítemskráði á bókfell árið 1200 seig nú með orðum listaskáldsins hóglega, hæglega á grunn sinn steinhlaðinn sem kirkjubyggingar staðarins hafa hvílt á allar þessar aldir. Eftir áratugar bið eftir endurreisn og endurnýjun systrasamlags kirkju og listasafns þá hefur nú önnur og annars konar bið tekið við sem helgast af óvissu og nauðsyn þess að þreyja þorrann sem merkir að þrauka, bíða einhvers með eftirvæntingu, þrá eitthvað.
Upphefðin kemur að utan
Frá bruna Krýsuvíkurkirkju og fram að heimsfaraldri var eins og ferðamenn, einkum frá útlöndum, hefðu uppgötvað hvílíkt djásn hvíldi þarna á Reykjanesskaganum. Straumur þeirra til Krýsuvíkur fór stöðugt vaxandi og spannaði allar árstíðir. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa síður gert sér grein fyrir því að í túnfæti þeirra væri náttúruparadís sem sameinaði öll helstu einkenni Íslands ef frá eru skildir jöklar og eyðisandar. Starfsemi Sveinssafns í Krýsuvík hefur heldur ekki náð til fjöldans sem skyldi enda hefur opnunartíminn fram til þessa verið takmarkaðri en gerist hjá öðrum söfnum. Viðleitni til að auka hann síðast liðið sumar var fljótlega kaffærð af faraldrinum.
Ferðamennirnir útlendu sækja í umhverfi Krýsuvíkursvæðisins, ekki síður á vetrum þegar ísflekar á svörtum sandi Kleifarvatnsstrandarinnar kallast á við sjóðandi jörðina í Seltúni þar sem litadýrðin er af öðrum toga. Sprengigígurinn Grænavatn með sínum sérstaka græna lit er annar staður sem heillar fólk og þaðan er gönguleið upp að Austurengjahver, sem færri hafa uppgötvað en er enginn eftirbátur Seltúns nema síður sé. Þá er Krýsuvíkurbjarg heimur út af fyrir sig, litfagurt og stórfenglegt. Uppi eru hugmyndir um að reisa þar útsýnispall. Út frá rústum Krýsuvíkurbæjarins og kirkjustaðarins eru menningarminjar allt umhverfis, rústir hjáleiga og kota og líka ævafornir garðar sagðir vera frá upphafi Íslandsbyggðar. Uppi á Arnarfelli sem gnæfir yfir menningarminjum fortíðarinnar kvikmyndaði Clint Eastwood frægt atriði fyrir kvikmynd sína Flags of Our Fathers (2006).
Milli Krýsuvíkurjarðarinnar og Sveinssafns eru svo rústir Gestsstaða, nærri sprengigígnum Gestsstaðavatni, sem hafa þá sérstöðu að ofan á þær hefur ekki verið byggt síðan bærinn, sem þar stóð, fór í eyði á miðöldum. Seinni tíma saga hefur að geyma viðleitnina til að endurreisa búskap og mjólkurframleiðslu í Krýsuvík og að virkja jarðhitann en hvorugt náði að rætast þrátt fyrir umtalsverða fjárfestingu. Eftir stendur ráðsmannshúsið sem hafnfirski listamaðurinn Sveinn Björnsson fékk til afnota og breytti í aðstöðu fyrir listsköpun sína árið 1974. Um líf hans í þessu húsi og hvernig hann sótti sér innblástur í umhverfið gerði undirritaður kvikmyndina „Málarinn og sálmurinn hans um litinn“ (2001) skömmu fyrir andlát hans.
Heimsmiðja svæðisins
Engin nútímalega þjónustu- og veitingaaðstaða fyrir ferðamenn er í Krýsvík. Snyrtiaðstaða er að vísu við Seltún en eina hefðbundna þjónustuaðstaðan sem hefur staðið fólki til boða á svæðinu hefur verið í listasafninu í Sveinshúsi. Fólki hefur þótt áhrifaríkt að koma inn í þetta einstaka hús eftir að hafa notið náttúrunnar umhverfis. Þarna hefur það getað hvílt lúin bein og fengið næringu fyrir líkama og sál.
Á opnunartíma safnsins hefur ætíð verið boðið upp á kaffiveitingar og persónulega leiðsögn um húsið og listsýningar þess. Í góðu veðri er hægt að njóta veitinga úti á palli og einstaks útsýnis til tveggja sprengigígsvatna í forgrunni og Atlantshafsins í bakgrunni, þar sem Bæjarfell og Arnarfell kljúfa sjóndeildarhringinn á tveimur stöðum en á milli þeirra blasir Krýsuvíkurkirkja við sjónum Sveinssafnsgestsins.
Ef við lítum betur í kringum okkur sjáum við að við erum stödd á þeim stað í Krýsuvík sem við getum kallað heimsmiðju svæðisins. Það er álíka langt héðan frá Sveinshúsi til Krýsuvíkurkirkju í suðri og Seltúns í norðri. Fyrir framan okkur er Grænavatn og utar Austurengjahver. Og enn utar á þessum hring eru Krýsuvíkurbjarg í suðri og í suðvestri verstöðin á Selatöngum og rústir Gömlu-Krýsuvíkur umluktar Ögmundarhrauni. Utar í norðri er Kleifarvatn með sínum ótal mótífum, sem listamaðurinn sótti í og ljósmyndarar nútímans fá sig seint fullsadda af.
Það blasir því við að hér við Sveinssafn, í þessari heimsmiðju svæðisins, ætti þjónustu- og sýningarskálinn að rísa og þjóna svæðinu öllu, náttúrunni, menningarminjunum og listinni en umfram allt gestum svæðisins, ferðalöngum, kirkju- og messugestum, listunnendum og þeim sem vilja fræðast um sögu svæðisins sem rakin verður til upphafs Íslandsbyggðar. Þannig tryggir skálinn framhaldslíf Sveinssafns og Krýsuvíkurkirkju og gerir Sveinssafni kleift að komast í gegnum lokafæðingarhríðir sínar eftir 25 ára rembing sem mun felast í stökkbreytingu frá því að vera fjölskyldufyrirtæki í einkahlutafélagsformi yfir í alskapaða „sjálfbæra“ rekstrareiningu sem færðist upp á nýtt plan með launuðum starfskrafti, stórum sýningum, fyrirlestrum og kvikmyndasýningum. Lifði þannig af sem undirstöðustofnun í Krýsuvík í stað þess að leysast upp og verða að engu þegar dagar okkar þriggja sona listamannsins verða allir og þar með hugsjónirnar sem haldið hafa ósjálfbjarga barninu á lífi í öll þessi ár.
Afl þeirra hluta sem gera skal
Haft er eftir athafna- og þjóðskáldinu Einari Benediktssyni, sem eitt sinn átti Krýsuvíkurjörðina, að peningar væru afl þeirra hluta sem gera skal. Því verða ferðamenn að skila rentunni til þessarar einstöku auðsuppsprettu, sem Krýsuvíkin er, með komu sinni þangað. Stefnan varðandi þetta efni hefur enn ekki verið mörkuð en er í bígerð sem birtist m.a. í því að nú starfar Krýsuvíkurhópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar við mótun tillagna að stefnumörkun fyrir svæðið í heild, þ.m.t. nýtingu þess í víðasta skilningi þess orðs. Sú spurning kann að vakna í þessu sambandi hvort verkefnið sé ekki í eðli sínu svo stórt að það kalli á liðstyrk ráðamanna sem fara með umhverfismál, atvinnu og nýsköpun og menningarmál á landsvísu? Og er ekki einboðið að stjórn Reykjanessfólkvangs ætti að eiga hér hlut að máli ásamt forsvarsmönnum vinafélags Krýsuvíkurkirkju? Ég læt mig dreyma um að þessir aðilar tengi saman krafta sína, finni sér sameiginlegan vettvang til að skiptast á skoðunum og framkvæmi síðan í samtaki með þeim hætti að eftirtekt vekti langt út fyrir landsteinana. Skipti þá engu þótt við þyrftum að þreyja þorrann í nokkur ár ef stefnan væri skír og samvinnan markviss. Væri ekki vígsludagur Krýsuvíkurkirkju rétti tíminn til að setjast niður í Sveinshúsi í messukaffinu og undirrita viljayfirlýsingu um samstarf þessara aðila, svæðinu og okkur öllum til heilla?
Samanburður
Þegar rætt er um byggingu þjónustu- og sýningarskála í ferðamannaparadísinni Krýsuvík getur verið rétt að staldra aðeins við og átta sig á stöðu Sveinssafns og safnkosts þess í samanburði við önnur sambærileg söfn á Íslandi og á Norðurlöndum, sem stofnuð hafa verið utan um verk eins listamanns. Við þá athugun kemur í ljós að safnkostur Sveinssafns er mjög stór eða sá þriðji stærsti á Íslandi á eftir stóru listasöfnunum landsins, Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur sem að vísu eru ekki skorðuð við verk eins listamanns. (Hér er Safnasafnið undanskilið af ákveðnum samanburðarástæðum).
Þegar gerður er samanburður við sambærileg söfn kemur í ljós að Sveinssafn er langstærsta listasafnið hér á landi og þótt víðar væri leitað með um 8500 verk í vörslu sinni eftir Svein og 300 verk eftir aðra. Við sjáum til dæmis að í Kjarvalssafni Listasafns Reykjavíkur eru alls 5340 verk, þar af aðeins 180 málverk. Hin verkin 5160 eru teikningar og skissur. Errósafn Listasafns Reykjavíkur samanstendur af um 4000 listaverkum af ýmsum toga. Verkatala annarra listasafna á Íslandi helguð einum listamanni eru minni. Í Danmörku varðveitir Willumsen safnið um 5000 verk eftir J.F. Willumsen. Annað listasafn í Danmörku sem helgað er listamannshjónunum Carl-Henning Pedersen & Else Alfelts samanstendur af 6000 verkum þessara málarahjóna. Carl-Henning Pedersen var einn helsti áhrifavaldur Sveins Björnssonar og safn hans hið fyrsta sinnar tegundar í Danmörku. Það er síðan Edvard Munch safnið í Osló sem á metið en það varðveitir næstum 27.000 verk eftir þennan stórmeistara norrænnar myndlistar. Ekki er samt allt sem sýnist í þeim efnum því þegar betur er gáð er áhugavert að bera það saman við Sveinssafn ef við sleppum að telja 18 322 grafískar eftirprentanir en höldum samt eftir frumverkum grafísku myndanna 842 að tölu. Þá standa eftir um 9100 verk í Munchsafni sambærileg við 8500 verk Sveinssafns að viðbættum þeim 300 verkum sem það á og varðveitir eftir aðra.
Niðurstaðan verður því sú að þessi söfn eru á pari hvað listaverkatölu varðar eins og lesa má í eftirfarandi töflu:
Munch safnið | Sveins-safn | ||
Tegund verks | Fjöldi | Fjöldi | Aths. |
Málverk | 1200 | 1200 | Í báðum tilvikum er talan eitthvað lægri. |
Vatnslitamyndir | 667 | Munch safnið tiltekur ekki vatnslitamyndir. Þau gætu verið hluti af málverka-flokknum. | |
Grafík | 842 | 0 | Hér er tilgreindur fjöldi frumverka að grafíkmyndum Munchs. Sveinn gerði ekki grafísk verk. |
Teikningar og skissur | 7050 | 6500 | |
Klippimyndir | 111 | ||
Skúlptúrar | 14 | 30 | |
Leirlistaverk | 18 | ||
Teppi | 8 | ||
Listaverk alls: | 9 106 | 8 534 | |
Verk eftir aðra | ? | 300 |
Mismunur heildarfjölda verka eftir Edvard Munch og Svein Björnsson er 572 verk Munch í vil. Til viðbótar eru margvíslegir safngripir þar sem Munch safnið hefur vinninginn hvað fjölda varðar en tegundirnar eru sambærilegar.
Næsta vor fær listaverkagjöf hins heimskunna listamanns Edvard Munch loks sinn verðuga sess í nýrri glæsibyggingu á mörgum hæðum sem reist hefur verið gagngert utan list Munchs í hjarta Oslóar næst við nýju þjóðaróperuna og ekkert til sparað. Þarna er Munchsafninu (Munchmuseet) ætlað stórbrotið hlutverk. Við opnun safnsins verða liðin 77 ár frá því að borgin tók við listaverkagjöf Edvards Munchs sem lést árið 1944.
Einhverjum finnst það áreiðanlega glannalegt að bera saman Sveinssafn og Munchsafnið í Osló og Sveinssafn og J. F. Willumsen og Carl-Henning Pedersen & Else Alfelts söfnin í Danmörku. Ég held samt að þessi samanburður geti vakið okkur til vitundar um þau verðmæti sem við höfum yfir að ráða og hvaða möguleikar í þeim felast. Það skal undirstrikað að ekki er verið að bera saman gæði og frægð verkanna og þar með málarana sjálfa heldur umfang safnkosts. Þessi samanburður er til þess fallinn að skapa byr í seglin þegar við nú stöndum frammi fyrir því hvort rétt sé og framkvæmanlegt að láta drauminn um byggingu þjónustu- og sýningarskála við Sveinssafn rætast til fulls.
Þegar draumar rætast
Hugmyndin að byggingu þjónustu- og sýningarskála við Sveinshús í Krýsuvík er ein af forsendum þess að Sveinssafn geti gegnt hlutverki sínu um ókomin ár sem starfhæf rekstrareining með föstum starfskrafti og öðru því sem þarf til nútíma safnareksturs. Skálinn skiptir einnig miklu máli fyrir áframhaldandi messuhald í Krýsuvíkurkirkju. Hann fullkomnar upplifun ferðamannsins með því að samtengja upplifun náttúru, þjóðmenningar og listar. Þrátt fyrir sýningar í Sveinshúsi sl. 20 ár og þrjár stórar sýningar í Hafnarborg auk farandsýninga og myndaleigu er safnkosturinn að stærstum hluta ósýndur og innilokaður í geymslu safnsins í Hafnarfirði. Með skálanum fæst nýtt aðgengi að verkum Sveins til viðbótar við litlu herbergin tvö sem nú hýsa sýningar safnsins.
Hugmyndin gerir ráð fyrir að þjónustu- og sýningarskálinn rísi hornrétt á Sveinshús með glertengibyggingu við austurgafl þess og snúi þannig á langveginn að Krýsuvíkursvæðinu frá norðri til suðurs. Í skálanum geta ferðamenn notið veitinga og stórbrotins útsýnis á allar hliðar í veitingaaðstöðunni á svölum yfir sýningarsalnum. Í fyrirlestrarsal skálans munu þeir fræðast um jarðfræði og menningarminjar svæðisins og kynnast listamanninum sem málaði í Krýsuvík allan sinn listamannsferil með fyrirlestrum og kvikmyndasýningum á bíótjaldi. Á vetrum eiga þeir kost á að láta heillast af norðurljósum og stjörnudýrð himingeimsins en aðstaða til stjörnuskoðunar er sérstaklega góð í Krýsuvík. Af sjálfu leiðir að skálinn þarf að rísa skv. nýjustu kröfum um byggingarlist, hönnun og samræmi bygginga við umhverfi sitt. Þarna er áskorunin.
Nú í upphafi þorra þennan heimsfaraldsvetur 2021 er eins og margt jákvætt liggi í loftinu sem gefur vísbendingu um að hugmyndin að þjónustu- og sýningarskála fyrir Krýsuvíkursvæðið gæti verið á einhverri leið frá draumi til veruleika: Hugmyndin er greipt inn í framtíðarsýn Sveinssafns sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema af því að tekið er mið af henni í nýlegum samstarfssamningi safnsins og Menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar. Hún hefur verið kynnt í samtali og á prenti fyrir formanni Krýsuvíkurhópsins, sem lítur hana jákvæðum augum. Hún hefur verið óformlega rædd við bæjarstjóra Hafnarfjarðar og hún liggur til grundvallar samkomulagi við Umhverfissvið Hafnarfjarðar sem nú tekur þátt í áfangaskiptu meiriháttar viðhaldi Sveinshúss þannig að það verði tilbúið til að takast á við tenginguna við þjónustuskálann þegar þar að kemur. Gert er ráð fyrir að áfangaskipt viðhald Sveinshús sé fyrsta lotan í átt að þjónustuskálanum. Í annarri lotu færi fram hugmynda- hönnunar og fjármögnunarvinna fyrir arkitektasamkeppni en í þeirri þriðju fjármögnun verkefnisins og byggingarframkvæmdir, væntanlega í áföngum. Frumhugmyndin hefur verið rissuð á blað og hún studd ljósmyndum í tengslum við umsókn Sveinssafns í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
Komið hefur til tals að ef jarðhitavinnsla yrði heimiluð í Krýsuvík þyrfti sú framkvæmd að vera bundin skilyrði um þátttöku í uppbyggingu innviða svæðisins og í samtölum við áhrifafólk á myndlistarsviði að við séum með alveg einstak tækifæri í höndunum á mælikvarða landsins alls, jafnvel þótt víðar væri leitað sem er samspil fjölbreyttrar náttúru, þjóðmenningar og listar í Krýsuvík. Menn þyrftu að leita langt til að finna listasafn úti í náttúrunni fjarri þéttbýli þar sem listamaðurinn starfaði og sótti sér innblástur. Verðlaunuð kvikmynd sé til um listsköpun hans þar og tvær myndir séu í smíðum um Krýsuvíkurkirkju og Sveinssafn. Niðurstaðan því sú að ærið tilefni væri til þess að hugsa STÓRT því þannig gætum við búið svo um hnútana að allir ferðamenn sem til Íslands koma í framtíðinni fyndu sig knúna til að sækja heim þennan afburða ferðamannastað sem Krýsuvík er. Þar byði hans Ísland í hnotskurn í aðeins hálftíma akstursleið frá Hafnarfirði að ógleymdri aðkomunni frá Suðurstrandarvegi. Á öðrum stöðum á landinu þar sem byggð hefur verið upp menningartengd ferðaþjónusta miðast uppbyggingin oftast við eitthvað eitt ákveðið en byggir ekki á þeim sérstæða fjölbreytileika sem Krýsuvík hefur upp á að bjóða.
Þjónustu- og sýningarskáli í Krýsuvík, byggingarlistaverk í sjálfu sér og menningarlífið sem með honum mun blómstra í heimsmiðju svæðisins, er vélin sem snýr öllu í gang í þessum afburða ferðamannastað. Eftir þá gangsetningu verður það leikur einn að þreyja þorrann eins lengi og með þarf til að þessi mikla draumsýn verði að veruleika.
Erlendur Sveinsson.